Töluvert tjón á Blábjörgum á Borgarfirði eystra

Sjávarflóð olli töluverðu tjóni á húsnæði gistihússins Blábjarga á Borgarfirði eystra um hálf tvö leytið í dag. Þar flæddi inn í íbúð sem leigð er út til ferðafólks auk þess sem heitir pottar fóru á flakk. 

 „Húsið stendur auðvitað niðri í fjöru. Brimið var bara svo mikið. Það sprengdi upp hurðina á íbúðinni og sjór flæddi inn,“ segir Elísabet D. Sveinsdóttir starfsmaður Blábjarga. 

Hún segir að það hafi verið um þriggja sentímetra lag af sjó inni í íbúðinni og mikið af grjóti og þara hafi fylgt með. „Ég var nýbúin að labba þarna fram hjá þegar þetta gerðist. Við fórum bara strax í að dæla sjónum og moka grjótinu og þaranum út,“ segir hún.

Einnig varð töluvert tjón á trépöllum, stigum og heitum pottum sem staðsettir eru fyrir utan gistihúsið.

„Það fóru hérna tveir heitir pottar á flakk. Annar þeirra losnaði og skreið til um þrjá til fjóra metra en hinn ekki nema um einn,“ segir hún.

Elísabet segir að ekkert aftakaveður hafi verið á Borgarfirði í dag. „Það var bara mikill og sterkur vindur og rosalegt brim, en nánast engin úrkoma,“ segir hún. 

Annars hefur verið tíðindalítið á Borgarfirði í dag að hennar sögn.

Hér að neðan getur að líta myndir sem sýna hluta af því tjóni sem varð af flóðinu.

 

 

 

 

 

 

 

 Myndir: Elísabet D. Sveinsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar