Mikil spurn eftir íbúðarhúsnæði
Byggingafyrirtækið Og Synir/Ofurtólið ehf hefur að undanförnu unnið að hugmyndum um byggingu íbúðarhúsa á Reyðarfirði og Eskifirði. Framkvæmdastjórinn segir töluverða spurn eftir fasteignum á svæðinu og áhuginn sé enn meiri en framkvæmdaáætlanir gefa til kynna.Og Synir eru um þessar mundir að gera fokhelt einbýlishús á Reyðarfirði sem afhent verður fyrir jól. Þá er fyrirtækið í startholunum með að hefja byggingu fjögurra íbúða raðhúss við Ystadal Eskifirði. Íbúðirnar eru 65 og 95 fermetrar og að sögn Þorsteins Erlingssonar, framkvæmdastjóra, eru þrjár þeirra þegar fráteknar.
„Það er gríðarleg eftirspurn hjá bæði yngra fólki sem vill komast í eigið húsnæði og eldra fólki sem vill minnka við sig. Á Eskifirði hefur eldra fólkið flutt á Reyðarfjörð því ekki hefur verið til húsnæði við hæfi en það vill fara til baka,“ segir Þorsteinn í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Miklar þreifingar
Fyrirtækið er með tvö eins raðhús á Eskifirði á teikniborðinu, auk parhúsa með bílskúr, bæði þar og á Reyðarfirði. Þá hefur fyrirtækið óskað eftir einbýlishúsalóð við Brekkugerði á Reyðarfirði auk þess sem það er að hefja bygginu einbýlishúss fyrir ákveðinn kaupanda.
Þorsteinn segir áhuga víða um Austurland á byggingu fasteigna og teikningarnar að húsunum í Fjarðabyggð geti nýst víða og nefnir Seyðisfjörð. „Ég hef miklar væntingar til þessara verkefna og það eru miklu meiri þreifingar en þær íbúðir sem teknar hafa verið frá gefa til kynna. Við höfum verið að byggja upp traust á verkefnið, það þarf að vera til staðar trú á að húsin seljist áður en byrjað er að byggja. Ég held að þær góðu viðtökur sem við höfum fengið muni hjálpa til alls staðar,“ segir hann.
Ekki sanngjarnt að bera saman gömul hús og ný
Byggingaverktakar hafa verið tregir að fara af stað á Austurlandi því söluandvirði nýrra húsa hefur varla staðið undir byggingakostnaði. Þorsteinn segir lykilatriði að undirbúa verkið vel og vanda til verka því dýrast af öllu sé að endurvinna það sem búið er að gera.
Hann bendir einnig á að verðmatið á fasteignamarkaðinum sé ekki alltaf rétt. „Það er ekki sanngjarnt að bera saman 20 ára gamalt hús og nýtt. Þú getur sloppið vel með kaupverð á gömlu húsnæði en svo er allt hitt eftir. Það er vandfundið gamalt hús sem ekki þarf að eyða 10-15 milljónum í að standsetja.“
GG
Frá framkvæmdum við einbýlishús við Stekkjarholt á Reyðarfirði sem Og synir byggja. Mynd: Og synir ehf.