Mikill léttir að samningar við Færeyinga og Breta eru í höfn

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það mikinn létti fyrir greinina að annars vegar hafi náðst samningar við Færeyinga um kolmunnaveiðar og viðskipti við Breta eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Báðir samningarnir voru staðfestir í gær.

„Þetta eru virkilega góðar fréttir ofan í loðnuleysið,“ segir Jens Garðar.

Í hádeginu í gær var tilkynnt um að samningar hefðu náðst við Færeyingar um veiðar Íslendinga á kolmunna innan færeysku lögsögunnar á yfirstandandi vertíð. Samningar höfðu verið lausir frá því um áramót.

Í nýlegri samantekt Fjarðabyggðar um áhrif loðnubrests á samfélagið þar var varað við að áfallið yrði enn meira ef ekki semdist við Færeyinga. Áætlað verðmæti kolmunna í sveitarfélaginu í fyrra nam 4,5 milljörðum króna.

Íslensku skipin hafa undanfarin ár veitt um 80% kolmunnakvótans í færeyskri lögsögu en austfirsk skip eru með yfir 60% útgefins kvóta. Að undanförnu hefur kolmunninn verið veiddur á alþjóðlegu hafsvæði út af Írlandi með ærnum tilkostnaði auk þess sem hann stefnir nú í færeyska lögsögu. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu er búið að veiða rúm 70 þúsund tonn, eða 30% af kvóta ársins.

„Þessi samningur gerir okkur kleift að veiða það sem eftir er af kvótanum. Veiðin hefur verið döpur í íslenskri lögsögu undanfarin ár og útlitið hefði ekki verið bjart ef við hefðum þurft að sækja allt í alþjóðlegan sjó,“ segir Jens.

Óvissu létt um skammtímaáhrif Brexit

Seinni partinn í gær var síðan skrifað undir bráðabrigða fríverslunarsamning við Bretland ef landið gengur úr Evrópusambandinu án samnings. Samningurinn tryggir að áfram verða fluttar út íslenskar sjávarafurðir til Bretlands á sömu tollakjörum og gilda í dag.

Bretland hefur áratugum saman verið mikilvægasti markaður íslensks sjávarfangs. Útflutningsverðmæti til Bretlands í fyrra nam 36,7 milljörðum króna, eða rúmum 15% af heildarútflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða.

Bretar eiga enn eftir að staðfesta skilnað sinn við Evrópusambandið en að óbreyttu ætti hann að verða 29. mars, með eða án samnings við sambandið og löndin sem tilheyra evrópska efnahagssvæðinu. „Það var kominn mikill kurr í sjávarútveginn. Óvissan hefur verið verst og það er ótrúlega mikill léttir að hún sé úr sögunni. Útflutningi hefði fylgt stórkostlega mikil pappírsvinna, svo sem við gerð vottorða og fleira, ef ekki hefði samist,“ segir Jens Garðar.

Engar fréttir eru hins vegar að hafa af loðnu en leit var hætt í byrjun síðustu viku. „Við verðum að horfast í augu við það og vona að hún sýni sig aftur á næsta ári. Loðnuleysi í ár þarf ekki að gefa neitt til kynna fyrir það næsta. Auðvitað eru menn þó hugsi yfir stöðunni, göngumynstur hennar hefur breyst, hún hefur komið síðar inn í íslenska lögsögu og þetta má rekja til breytinga í sjónum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.