Mikilvægt að aðgreina umferð gangandi og ökutækja í Gleðivík

Rannsóknanefnd samgönguslysa (RNSA) telur mikilvægt að aðgreina vel umferð gangandi vegfarenda og ökutækja við listaverkið Eggin í Gleðivík á Djúpavogi. Úrbætur hafa verið gerðar eftir að banaslys varð þar sumarið 2022.

RNSA sendi fyrir helgi frá sér skýrslu að lokinni rannsókn sinni á banaslysinu. Gangandi vegfarandi lést eftir að hafa orðið fyrir skotbómulyftara á ferð með kör full af fiski. Nefndin telur aðalorsök slyssins hafa verið þá að körin fjögur framan á lyftaranum hafi hindrað útsýni ökumanns.

Þá er einnig bent á að lyftaranum hafi verið ekið áfram, en ekki afturábak eins og kennt sé á námskeiðum að eigi að gera þegar farmur hindri sýn úr lyftara auk þess keyrt var á vinstri helmingi. Með því var ökumaðurinn bæði að forðast holur í veginum en líka annan vegfaranda sem hann hafði séð. Fram kemur að lyftarinn hafi aðeins verið á 5-8 km/klst. hraða

Eins kemur fram í athugasemd að í fyrstu hafi leikið vafi á um hvort væri að ræða umferðarslys eða vinnuslys, þar sem um vinnuvél var að ræða. Hið fyrrnefnda hafi orðið ofaná því vélin var skráningarskyld á skráðum vegi.

Ekki hugað að öryggi ferðafólks með skipulagi


RNSA bendir á ýmsa þætti sem almennt megi lagfæra til að bæta öryggi á svæðinu. Gagnrýnt er að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir svæðið áður en eggin voru sett upp árið 2009. Meðal annars þess vegna hafi ekki verið hugað að öryggismálum þótt kjörnir fulltrúar í Djúpavogshreppi hafi gert sér grein fyrir að listaverkið myndi draga að sér ferðafólk.

Ferðamennskan hefur reyndar margfaldast á við það sem hún var árið 2009 auk þess sem uppbygging hefur orðið í Gleðivík vegna fiskeldis sem þá var erfitt að sjá fyrir. Staðan er þó sú að umferð ferðamanna, svo sem af skemmtiferðaskipum, og ökutækja, vegna landana báta og framleiðslu fiskumbúða hefur stóraukist á svæðinu síðustu ár. Búið er að gera deiliskipulag fyrir hluta svæðisins, þó ekki þar sem slysið varð.

Sveitarfélög geri umferðaröryggisáætlanir


RNSA segir að aðgreina þurfi umferðina á svæðinu betur. Bætt var úr því strax eftir slysið með köðlum. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar eru þeir teknir niður á veturna, bæði til að auðvelda snjóruðning en einnig því umferðin er mun minni. Frekari úrbætur eru fyrirhugaðar á vormánuðum og á meðal annars að gera gangstétt við Eggin.

Nefndin bendir líka á að ekki hafi verið til umferðaröryggisáætlun fyrir Djúpavog en tilgangur þeirra er að kortleggja varasama staði þannig hægt sé að bæta úr. Vinna við hana fyrir Múlaþing sem heild er að hefjast. Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í gær var samþykkt tilboð verktaka um vinnu við hana.

Því er almennt beint til sveitarfélaga að gera umferðaröryggisáætlanir til að fækka slysum. Góð reynsla hafi fengist þar sem þær séu til. Eins eru sveitarfélög hvött til að huga að skipulagi og öryggismálum, sérstaklega þar sem landnotkun er breytt eins og raunin hafi verið í Gleðivík.

Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi


Ökumaður lyftarans var síðasta sumar dæmdur í skilorðbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi í Héraðsdómi Austurlands. Taldi dómurinn að farmurinn hefði ekki verið nægjanlega vel festur auk þess sem ökumaðurinn hefði ekki farið nógu varlega um svæði þar sem vita mætti að fólk væri á ferli. Tekið er fram að ökumaðurinn hafi eftir slysið látið öryggismál til sín taka.

Skýrslum RNSA er ekki ætlað að sýna fram á sök eða sakleysi, heldur draga úr hættu á sambærilegum slysum. Ekki er heimilt að beita þeim sem sönnunargögnum í dómsmálum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar