Mikilvægt að Austurland eignist sín eigin vörumerki í matvælaframleiðslu

Grænmetisrækt á Fljótsdalshéraði er takmörkuð þrátt fyrir að skilyrðin séu að mörgu leyti góð. Mikilvægt er að sveitarfélög setji sér stefnu um innkaup á hráefnum til að skapa staðbundinn markað.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Eyglóar Bjarkar Ólafsdóttir, annars eiganda Móður Jarðar í Vallanesi, á fundi sem atvinnu- og menningarmálanefnd Fljótsdalshéraðs stóð fyrir nýverið um matvælaframleiðslu.

Móður Jörð, ásamt Havarí í Berufirði, er það fyrirtæki af Austurlandi sem mestri dreifingu hefur náð utan Austurlands. Eygló benti á að mikilvægt væri að austfirskir matvælaframleiðendur kæmu vörum sínum á markað utan fjórðungsins.

„Miðað við fólksdreifingu flytjum við að líkindum 97% framleiðslu okkar út af svæðinu. Vegna staðsetningarinnar vantar heimamarkaðinn.“

Móðir Jörð hefur sérhæft sig í ræktun lífræns grænmetis. Eygló benti á að þau séraustfirsku matvælafyrirtæki sem náð hafi lengst, svo sem brugghúsin Austri og Beljandi, Holt og Heiðar og Jurt byggi öll framleiðslu sína á jurtaríkinu.


Þar taldi hún felast meiri tækifæri. Á svæðinu vaxi mikið af berjum en aðeins lítið hlutfall þeirra sé nýtt. Kornrækt hafi gengið ágætlega og löng hefð sé fyrir kartöflurækt. „Hún hófst hér á 18. öld og hér er fólk sem varðveitir gamlar kartöflutegundir.“

Eygló benti á að eystra séu ekki ræktaðir tómatar, eða gúrkur – það grænmeti sem nýtur framleiðslustyrkja. Engin ylrækt sé þrátt fyrir góð skilyrði á svæðinu. Þá sé spurn eftir jurtum í bæði snyrtivörur, mat og drykki.

Eygló vakti enn fremur athygli á að kröfur séu að breytast til matvælaframleiðslu með aukinni áherslu á sjálfbærni. Hún benti á að sauðfjárbændur væru stærstu hráefnisframleiðendurnir á Austurlandi, hægt væri að ýta undir lífrænni ræktun með að koma upp miðlægum áburðarstöðum, sem þekkist víða erlendis. Sveitarfélög gætu haldið utan um stöðvarnar og safnað þar saman lífrænum úrgangi.

Þá hvatti hún einnig til þess að sveitarfélög settu sér innkaupastefnu sem miðaði að því að kaupa mat úr heimahéraði til að ýta undir heimamarkað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.