Mikilvægt að heimamenn sitji í svæðisráðum þjóðgarðsins

Mikilvægt er er að sveitarstjórnarfólk, oddvitar og bæjarstjórar sitji í svæðisráðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þetta kom m.a. fram í máli Agnesar Brá Birgisdóttur þjóðgarðsvarðar á austursvæði þjóðgarðsins á ráðstefnu Landverndar og NAUST í gærdag.

Um var að ræða seinni dag ráðstefnunnar undir formerkjunum Náttúra Íslands og hálendisþjóðgarður. Fór hún fram á netinu og hægt er að sjá hana á Facebooksíðu Landverndar.

Agnes Brá segir að mikilvægt sé að fólk með vægi og áhuga veljist í fyrrgreind svæðisráð og að raddir heimamanna úr ferðaþjónustu, útivist og náttúrvernd heyrist. Hugmyndafræði Vatnajökulsþjóðgarðs byggist upp á að ákvarðanataka um stýringu svæðanna sé sem næst þeim. Reynslan erlendis frá sýnir að friðlýstum svæðum sé best stýrt með aðkomu heimafólks og góðu samráði.

Svæðisráð hafa skipulagsvald í gegnum stjórnunar- og verndaráætlanir og er það eitt mikilvægasta hlutverk þeirra. Hagsmunaaðilum á landsvísu er tryggð aðkoma að samtalinu í gegnum samráðsfundi og stjórn.Sem stendur er ekki tilgreindur hámarkstími á skipun í stjórnir/svæðaráð né gerð krafa um að viðkomandi hafi lögheimili í sveitarfélaginu.

Mikil vöxtur hefur verið í starfsemi þjóðgarðsins í takt við stóraukinn fjölda ferðamanna sem heimsótt hafa hann á undanförnum árum. Þannig voru á bilinu 90 til 100 sumarstörf til staðar innan þjóðgarðsins frá árinu 2017 og þar til í sumar að þeim fækkaði í tæplega 80 þar sem komum ferðamanna fækkaði töluvert vegna COVID.

Agnes Brá segir að starfsemi þjóðgarðins hafi að mörgu leiti verið kapphlaup við veldisvöxt erlendra gesta frá árinu 2012. Framkvæmdir og uppbygging innviða hafi dreifst um öll svæðin en uppbygging atvinnu hafi verið nær öll þar sem styst er í þjóðgarðinn frá hringveginum, það er suðursvæðinu. Sem dæmi má nefna að af 34 föstum ársverkum við þjóðgarðinn eru 19 á suðursvæðinu. Á austursvæðinu eru þau 3 eins og á vestursvæðinu og 4 á norðursvæðinu láglendi, eitt á norðursvæði hálendi og 4 á skrifstofunni í Garðabæ (störf á skrifstofu eru ca 8 þar af 4 út á svæðunum).

Agnes bendir á að enn séu sóknarfæri í uppbyggingu starfa tengd þjóðgarðinum norðan jökla, t.d. í ferðaþjónustu, rannsóknum og fræðslu.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 2008 og er einn stærsti þjóðgarður Evrópu. Hann þekur um 15% af Íslandi. Þá er garðurinn á heimsminjaskrá UNESCO.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.