Mikilvægt að huga að velferð allra í samfélaginu
Félagsþjónustur Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar, lögreglan á Austurlandi og Heilbrigðisstofnun Austurlands hvetja íbúa til að fylgjast með nágrönnum og ættingjum og láta vita ef stuðnings er þörf.Þetta kemur fram í orðsendingu til íbúa sem stofnanirnar sendu frá sér í dag.
Þar segir að vegna covid-19 faraldursins sé mikilvægt að íbúar Austurlands standi allir saman og hugi að velferð allra í samfélaginu.
Stofnanirnar þekki vel til sinna skjólstæðinga og reyni að sinna öllum vel í því ástandi sem nú á við.
Til að fyrirbyggja að einhver sem er einangraður og/eða þarfnast þjónustu fari framhjá stofnunum er biðlað til almennings um að fylgjast nágrönnum og ættingjum og láta vita ef grunur leikur á að einhver þurfi á stuðningi að halda.
Hafa má samband við Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs í síma 470-0700 eða Félagsþjónustu Fjarðabyggðar í síma 470-9000.