Mikilvægt að skoska leiðin verði innleidd eins hratt og mögulegt er

Niðurgreiðslur á flugferðum til þeirra sem hafa lögheimili á landsbyggðinni myndi styrkja innanlandsflug en leysir ekki allan fjárhagsvanda þess. Mikilvægt er að innanlandsflugið verði skilgreint sem almenningssamgöngur og njóti stuðnings líkt og þær.

Þetta segir Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hafa staðið upp úr á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun en Líneik er annar varaformaður nefndarinnar.

Boðað var til fundarins að beiðni Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi, til að ræða stöðu innanlandsflugs í kjölfar frétta um fækkun farþega og að til standi að fækka ferðum á nokkra áfangastaði í vetur.

Líneik Anna segir þingmenn hafa fylgst með þróun mála í nokkurn tíma og til fundarins verið boðað um miðjan ágúst. Til fundarins mættu fulltrúar frá Air Iceland Connect og Erni auk Isavia. Líneik segir fulltrúa flugfélaganna ekki hafa borið sig illa, þau séu vön sveiflum í sínum rekstri sem fylgja hagvexti á landsbyggðinni.

Meðal umræðuefna á fundinum var hvort flýta ætti innleiðingu hinnar skosku leiðar, niðurgreiðslu fargjalda fyrir íbúa á landsbyggðinni, sem lagt hefur verið til að gangi í gildi á næsta ári enda talið mikilvægt að fylgjast vel með innanlandsfluginu meðan hún gengur í gildi. Líneik segir það viðhorf hafa ríkt að mikilvægt væri að skoska leiðin yrði innleidd eins hratt og mögulegt er.

Leiðinni er bæði ætlað að auðvelda íbúum landsbyggðarinnar að sækja þjónustu sem byggst hefur upp miðlæg, sem og að treysta rekstrargrundvöll flugfélaganna. Hæpið sé hins vegar að hún ein leysi allan vanda. Áfram verði staðir sem séu það litlir að ríkið þurfi trúlega að styrkja flug þangað sérstaklega eins og það hefur gert.

Allt þetta tengist svo þeirri hugsun að litið sé á innanlandsflugið sem almenningssamgöngur. Ekki dugi að styrkja til dæmis eingöngu ferjur og strætisvafna og gera sömu kröfur um þjónustu til flugsins en ætlast til þess að það standi alfarið á eigin fótum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar