Miklar breytingar á hreindýraveiðum: Dýrin hafa fært sig sunnar á bóginn
Heimilt er að veiða allt að 1229 hreindýr á veiðitímabilinu í ár sem er fjölgun upp á rúmlega 200 dýr. Töluverð breyting innan svæða þar sem dýrin virðast hafa fært sig sunnar. Þá verður leyft að veiða dýr í nóvembermánuði.
Þetta kemur fram í auglýsingu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér í morgun. Alls er leyfilegt að veiða 1229 dýr, 623 kýr og 606 tarfa. Það er fjölgun um 220 dýr frá því í fyrra.
Stærsta breytingin er sú að ekki er lengur mestur kvóti á veiðisvæðum 1&2 sem yfirleitt hafa verið flokkuð saman. Stærsta veiðisvæðið í ár er svæði 7, Djúpavogshreppur. Í tilmælum Umhverfisstofnunar er gert ráð fyrir að stærstur hluti kvótans verði veiddur í Hamarsdal.
Í ár er leyft er að veiða 425 dýr á svæði 7 en þau voru aðeins 187 í fyrra. Það er meira en tvöföldun á kvótanum á svæðinu. Á svæði tvö, sem nær yfir svæðið norður frá Jökulsá á Dal austur að Grímsá, aðeins þriðjungur kvótans eftir. Leyft er að veiða 122 dýr samanborið við 349 í fyrra.
Þá er þeim tilmælum beint til veiðimanna að veiða dýrin fyrst og fremst austan Jökulsár í Fljótsdal. Skýringin er að hreindýrum á Fljótsdalsöræfum hafi fækkað mikið undanfarin ár.
Heimilt er að veiða tarfa frá 15. júlí og standa þær til 15. september eins og verið hefur. Veiðitími kúa lengist um fimm daga í lokin, er frá 1. ágúst til 20. september.
Á veiðisvæði 8, Lónum og Nesjum, er heimilt að veiða 22 kýr af 68 á tímabilinu 1. – 30. nóvember. Á svæði 9, Mýrum og Suðursveit, má veiða allar kýrnar í nóvembermánuði. Nóvemberveiðin er ekki óþekkt hefur ekki verið leyfð undanfarin ár.
Svæði | Kvóti 2012 | Kvóti 2013 | Breyting | Hlutfall |
1 | 111 | 188 | +77 | +69,37% |
2 | 349 | 122 | -277 | -65,04% |
3 | 75 | 80 | +5 | +6,67% |
4 | 31 | 37 | +6 | +19,35% |
5 | 63 | 68 | +5 | +7,94% |
6 | 76 | 151 | +75 | +98,68% |
7 | 187 | 425 | +238 | +127,27% |
8 | 72 | 113 | +41 | +56,94% |
9 | 45 | 45 | - | - |
Alls | 1009 | 1229 | +220 | +21,80% |