Milljarðs gjaldþrot Trésmiðju Fljótsdalshéraðs

egilsstadir.jpg Kröfur í þrotabú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs og tveggja skyldra félaga námu tæpum einum og hálfum milljarði króna. Um fimmtungur þeirra fékkst greiddur. Skiptum á búunum lauk í desember.

 

Frá þessu er greint í Lögbirtingablaðinu. Félögin sem um ræðir eru Kass ehf., TF Festir ehf. og Trésmiðja Fljótsdalshéraðs ehf. Þau voru í eigu sömu eða tengdra aðila frá og með árinu 2002.

Á uppgangsárum á mið-Austurlandi upp úr árinu 2000 voru félögin umsvifamikil og áberandi í fasteignaviðskiptum. Til dæmis keypti Kass árið 2005 þrettán félagslegar íbúðir af Seyðisfjarðarkaupstað sem leigja átti út og árið 2006 tók það við rekstri Valaskjálfar á Egilsstöðum.

Um haustið fór rekstur Trésmiðjunnar í þrot. Hún sjálf var úrskurðuð gjaldþrota í byrjun desember 2006 og hin félögin tvö í lok mars 2007.

Hæstum kröfum var lýst í þrotabú Trésmiðjunnar, tæpum 920 milljónum króna. Upp í veðkröfur, rúmar 770 milljónir króna, fengust tæpar 170 milljónir.

Minnst fékkst upp í kröfur TF Festir, 19,8 milljónir en lýstar kröfur námu rúmum 315 milljónum. Upp í tæplega 200 milljóna kröfur í Kass ehf. fengust tæpar 90 milljónir.

Einn fyrrum eigenda Trésmiðjunnar var árið 2008 dæmdur til að greiða þrotabúinu yfir 100 milljónir króna. Samningum um greiðslur til hans, sem gerðir voru skömmu fyrir þrotið, var rift af skiptastjóra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.