Milljóna króna tjón vegna hafnarskemmda á Eskifirði

Búið er að laga að mestu skemmdirnar á Hafskipabryggjunni á Eskifirði. Það er orðið hættulaust að keyra um bryggjuna en vinnan er ekki alveg búin. Ljóst er að tjónið hleypur á milljónum króna.

Hreggviður Sigurþórsson hafnarvörður á Eskifirði segir að þekja hafi fallið niður úr bryggjunni nýlega og við það hafi komið í ljós gat á henni eftir ásiglingu. „Þetta gat var svo stórt að maður gat synt í gegnum það,“ segir hann.

Ekki er vitað hver sigldi á bryggjuna því viðkomandi lét ekki vita af því. Það er heldur ekki vitað hvenær þessi ásigling átti sér stað en ljóst að það hefur verið einhvern tímann á liðnu ári.

„Þetta var hættuleg staða meðan við vissum ekki af þessu gati, sem var neðansjávar, því bílar voru keyrandi þarna um. Það var heppni að engin umferð var um bryggjuna þegar þekjan gaf sig,“ segir Hreggviður.

Fram kemur í máli Hreggviðs að töluverður kostnaður liggi að baki viðgerðinni á bryggjunni. Það hafi þurft að kalla til kafara við að lagfæra skemmdirnar og síðan steypa upp í gatið og leggja stóra plötu á bryggjuna. Hann getur ekki nefnt nákvæma tölu um kostnaðinn að svo stöddu en segir ljóst að tjónið hlaupi á milljónum króna.

Mynd: Fjarðabyggð.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.