Minnast þeirra sem fórust í snjóflóðunum 1974

Minningarstund verður haldin í Norðfjarðarkirkju í dag þar sem 45 ár eru liðin síðan tólf manns létust í snjóflóðum sem féllu á Neskaupstað. Sérstaklega verður minnst sóknarprestsins Páls Þórðarsonar sem tókst á hendur erfitt verk eftir flóðin.

„Sem ungur og lítt reyndur prestur fær hann hið viðamikla hlutverk að ganga hús úr húsi og tilkynna aðstandendum hvað gerst hafði og hverjir ættu um sárt að binda.

Hann gekk leiðina á enda og hlífði sér ekki í neinu. Hann bar raunir sínar að miklu leyti einn á tímum. Hans eina hjálp var að vera sálusorgarinn og deila öxl eða faðmi. Þótt hann væri alveg kominn að því að bugast brotnaði hann ekki.

Hans verður lengi minnst fyrir þá sérstöðu sem hann var í þegar sálusorgun í formi áfallahjálpar var nánast óþekkt og hann vann þrekvirki. Því er rétt að hans sé minnst,“ segir séra Sigurður Rúnar Ragnarsson um séra Pál Þórðarson.

Byggði brú milli syrgjenda og kveðjuafhafnarinnar

Séra Páll var nýorðinn þrítugur þegar hann vígðist sem prestur austur í Neskaupstað og var í bænum þegar tólf manns fórust í snjóflóðum þann 20. desember árið 1974. Séra Páll flutti sig til Njarðvíkur tveimur árum síðar en lést, langt um aldur fram, haustið 1978.

Klukkan 18 í dag verður haldin minningar- og bænastund í Norðfjarðarkirkju, en hefð er fyrir minningarstundum á fimm ára fresti til að minnast þeirra sem létust í flóðunum. „Við komum saman og minnumst hinna látnu og finnum samkenndina sem er nauðsynleg og tilheyrir.“

Að þessu sinni verður séra Páls sérstaklega minnst. „Hann stóð í eldlínunni, með Ágúst Ármann Þorláksson þá nýráðinn organista, sér við hlið. Þeirra samstarf var aðdáunarvert og hvernig þeim tókst að byggja brú milli syrgjenda og kveðjuathafnarinnar,“ segir séra Sigurður Rúnar.

Fylgdist alltaf með Norðfirðingum

Hann starfaði sjálfur sem barnakennari þennan vetur. „Allan tímann sem ég kenndi voru krakkarnir að leita svara við tilvistarspurningum, eins og hví Guð láti snjóflóð falla. Ég reyndi mitt besta til að svara þótt ég væri ekki við hugann við guðfræðina þá,“ segir sr. Sigurður.

Skólastjórinn, Gísli Sighvatsson, hvatti Sigurð til að nema guðfræði. Þegar Sigurður var kominn suðurí námið hélt hann tengslum við séra Pál sem þá var fluttur suður. „Hann spurði mikið um aðstæður hér, staðinn og fólkið.“

Nýr sálmur frumfluttur

Við athöfnina í kvöld verður kveikt á krossi sem hefur eitt kerti fyrir hvert þeirra sem fórust í flóðunum og fluttur verður nýr sálmur eftir sr. Sigurð við gamalt sálmalag, en hann heitir „Þú ert mín stoð.“ Norðfirskir tónlistarmenn flytja nokkur lög.

Ritningarlestur kvöldsins verður lesinn af tveimur konum sem misstu nákomna ættingja í flóðunum, þeirra Huldu Gísladóttur og Ólafíu Waldorff.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.