Minni snjókoma í nótt en óttast var

Ekki hafa borist nein tíðindi af ofanflóðum á Austfjörðum í nótt en gripið var til rýminga á Seyðisfirði og Norðfirði í gærkvöldi. Útlit er fyrir lokanir á fjallvegum þar til á morgun.

Rýmd voru hús í útjaðri Seyðisfjarðarkaupstaðar og Neskaupstaðar klukkan tíu í gærkvöldi. Um leið gekk í gildi óvissustig vegna snjóflóða á Austfjörðum og hættustig á stöðunum tveimur.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands eru ekki líkur á frekari rýmingum í dag þar sem úrkoman í nótt var minni en spáð hafði verið. Það, sem og hvort rýmingunum frá í gærkvöldi, verði aflétt, ræðst af hvernig veðrið þróast í dag.

Gul viðvörun er í gildi til miðnættis vegna norðaustanhríðar. Samkvæmt veðurspám fer ekki að draga úr veðrinu af alvöru fyrr en um hádegi á morgun og áfram er spáð snjókomu víða á Austurlandi þar til á þriðjudagsmorgunn. Veðurstofan og almannavarnir eru í reglulegu sambandi til að meta stöðuna.

Vegunum yfir Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði var lokað í gær. Þeir verða á óvissustigi þar til á morgun. Ófært er um Vatnsskarð eystra og sú leið einnig á óvissustigi til morguns. Veginum yfir Fagradal var lokað í morgun. Ófært er í Fellum, Skriðdal, ofanverðum Jökudal og Heiðarenda. Annars staðar á Héraði er þæfingur en snjóþekja og skafrenningur til fjarða. Vegagerð og lögregla beina því til íbúa að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Viðbúið er að fólk utan rýmdra svæða finni fyrir óþægindum við þessar aðstæður. Því er bent á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar