Misskilningur að verið sé að leggja niður svæðisstöðvarnar

Þrátt fyrir að öllum starfsmönnum svæðisútvarps Rúv á Austurlandi hafi verið sagt upp utan einn á dögunum, þá segir Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri Rúv það vera misskilning að verið sé að loka svæðisstöðvum RÚV.

“Sumir halda að verið sé að loka svæðisstöðvunum. Það er ekki allskostar rétt. Það verður starfsemi og fréttaflutningur áfram frá svæðisstöðvunum, þrátt fyrir að svæðisbundnar útsendingar verði ekki áfram starfræktar.” Sagði Bjarni í samtali við Agl.is á dögunum.
 
ruv_rikisutv.jpg
 Ekki gleymdist að segja upp ræstitækni 
Sú saga er á sveimi á Austurlandi að gleymst hafi að segja upp ræstingakonunni hjá Svæðisútvarpinu á Egilsstöðum, þegar Ingólfur Bjarni Sigfússon tilkynnti öðrum starfsmönnum um starfslok sín á dögunum. Þennan orðróm ber Bjarni tilbaka. “Það þarf að þrífa húsnæðið áfram.” Sagði Bjarni og lagði áherslu á að sögusagnirnar væru ekki á rökum reistar. Húsnæði RÚV á Egilsstöðum hefur verið auglýst til sölu. 
 
Óviss um framtíðina
Agl.is hafði samband við Vilmundínu Kristjánsdóttur sem staðfestir að hún sjái áfram um ræstingar hjá RÚV á Egilsstöðum, í 20% starfi eins og verið hefur. Aðspurð segist hún ekki vita hvort beinlínis hafi gleymst að segja henni upp. Um framtíðina segir hún þó þetta: “Ég er ekki viss, það er allavega ekki búið að segja mér upp.”

Sigríður á leið í barnsburðarleyfi
Sigríður Halldórsdóttir er eini starfandi fréttamaður Rúv á Austurlandi eftir niðurskurð stofnunarinnar á svæðisútvarpinu. Samkvæmt heimildum Austurgluggans mun hún fara í barnsburðarleyfi áður en margir mánuðir líða. 

Rúnar Reynis ekki á leið austur
Þá gengur sú saga fjöllunum hærra að Rúnar Reynisson fréttamaður Rúv í Reykjavík verði fluttur til í starfi og muni taka við sem fréttamaður á Austurlandi og sé ætlað að verða eins konar Gísli Einarsson Austfirðinga. Heimildarmaður Agl.is hefur gefið í skyn að ráðahagurinn sé löngu ákveðinn. Rúnar Reynisson þekkja margir sem blaðamann Austurgluggans fyrir þó nokkrum árum síðan. Ekki fylgir sögunni hvort Vilmundína muni verða Rúnari til halds og trausts. Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Rúv, vill ekki staðfesta að Rúnar Reynisson sé á leið til starfa fyrir Rúv á Austurlandi. “Það eru svo margar sögusagnir á kreiki í þjóðfélaginu eins og þú veist.” Sagði Bjarni Guðmundsson í samtali við Agl.is á dögunum.
 
EBÞ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.