Móðir eina nemanda Grunnskóla Mjóafjarðar kennir honum í vetur

„Hún fékk val um að fara í burtu í vetur en hún gat ekki hugsað sér það,“ segir Erna Ólafsdóttir frá Mjóafirði sem mun í vetur kenna dóttur sinni Jóhönnu Björgu Sævarsdóttur sem er að fara í níunda bekk, en hún verður eini nemandinn í Grunnskóla Mjóafjarðar annað árið í röð.


Nemendum á Mjóafirði hefur fækkað síðastliðin ár og er þetta annar veturinn í röð sem aðeins einn nemandi verður við skólann. Eftir að Mjóifjörður sameinaðist við Fjarðabyggð hefur skólinn þó verið rekinn í samstarfi við Nesskóla í Neskaupstað og nemendur að hluta til sótt nám þar.

„Við mæðgur vorum nokkuð mikið á Norðfirði síðastliðinn vetur og það verður líklega eitthvað svipað í ár. Það verður þó aðeins á haustönninni en við förum ekkert eftir áramót þegar heiðin lokast og það verður verra í sjóinn,“ segir Erna, en ferjubátur gengur á milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar tvisvar í viku allan ársins hring.

Kennslan hefur gengið vel
Erna er ekki kennaramenntuð, en tók uppeldisbraut í framhaldsskóla á sínum tíma og svo áfanga í uppeldisfræði síðastliðin vetur. Hún segir kennsluna krefjandi.

„Jóhanna Björg er að fara í níunda bekk og ég kenndi henni einnig í fyrra. Hún er reyndar mitt sjöunda barn þannig að ég er kannski búin að setja mig inn í námsefnið nokkrum sinnum við eldhúsborðið heima, en það er þó á allt öðrum forsendum að gera það sem foreldri eða að þurfa að bera ábyrgð á innlögn í náminu. Þetta hefur þó bara komið ágætlega út, við vorum ánægðar með fyrirkomulagið og Nesskóli líka. Jóhanna Björg er góður námsmaður í grunninn þannig að þetta hefur ekki verið erfitt fyrir hana þannig að við erum heppnar með það.“

Erna segir Fjarðabyggð standa vel við bakið á þeim mæðgum. „Það er alltaf auglýsing um kennarastöðu hérna hjá okkur. Þegar ljóst var að Jóhanna Björg vildi ekki fara að heiman í skóla var það metið á þann veg, bæði að hálfu okkar foreldranna og skólayfirvalda að þetta fyrirkomulag yrði látið ganga upp, að hún þyrfti ekki að fara frá sínu lögheimili til þess að stunda nám í grunnskóla.“

Erna segir að þrátt fyrir að Jóhönnu Björgu gangi vel í náminu sé félagslegi þátturinn erfiður. „Það er það sem upp á vantar hjá okkur. Hin börnin okkar fóru öll að heiman í 10. bekk. Við erum ekkert farin að spá í það, þetta verður bara verkefni vetrarins og við ætlum ekki að hugsa lengur í bili.“



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.