Mögulegur skaðvaldur í laxeldi

IPN-veira hefur greinst í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Þetta er í fyrsta sinn sem veiran greinist í laxi á Íslandi en hún getur valdið sjúkdómnum brisdrepi í fiskum. Veiran fannst við sýnatöku sem er hluti af reglubundnu innra eftirlit hjá fyrirtækinu.

Í fréttatilkynningu frá MAST segir að þó svo veiran hafi greinst þá hafi sjúkdómurinn brisdrep (e. Infectious Pancreatic Necrosis - IPN) ekki greinst í í laxi úr kvíunum eða annarsstaðar á Íslandi. Sjúkdómurinn getur valdið talsverðu tjóni í eldi.

„Veiran getur verið skaðleg í ferskvatnsstöðvum en hún hefur ekki greinst þar. Hún er mjög algeng í vatna- og sjávardýrum um allan heim og því er líklegast að veiran hafi borist í fiskinn hjá okkur úr umhverfinu“ segir Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis.

Hann segir að þetta hafi ekki áhrif á daglega starfsemi þeirra og vöktun eigi sér stað í samstarfi við MAST.

„Fiskurinn dafnar og fóðrast vel og það eru engin merki um að alvarleg hætta sé á ferðum. Rétt er að árétta að veiran er algjörlega skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum,“ segir hann.

Hann bætir við að tveir dýralæknar á vegum Laxa fiskeldis vinni náið með starfsfólki MAST við nánari vöktun og eftirfylgni rannsókna.

Í tilkynningunni frá MAST kemur fram að laxinn sem veiran greindist í sé heilbrigður og ástand laxa í kvíum sé almennt gott. Samt sem áður ítrekar MAST mikilvægi vöktunar og smitvarna til að viðhalda góðri sjúkdómastöðu hérlendis og fyrirbyggja að sjúkdómurinn brisdrep komi upp í eldi, einkum í klak- og seiðastöðvum.

Matvælastofnun hefur í varúðarskyni sett dreifingarbann á starfsstöð fyrirtækisins að Bjargi í Reyðarfirði sem mun gilda þar til slátrað hefur verið úr sjókvíunum.

Í kjölfar þessarar greiningar er staða Íslands nú sambærileg stöðu Ástralíu og Nýja-Sjálands. Þar hefur veiran einungis verið greind í fiski í sjó en aldrei í ferskvatni. Bæði þessi lönd eru alþjóðlega skilgreind sem laus við brisdrep, eins og Ísland.

 

Fiskeldi Laxa í Reyðarfirði.  Myndin er aðsend 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar