Múlaþing hlutskarpast í nafnakönnun
Nafnið Múlaþing fékk flest atkvæði, bæði í fyrsta sæti og samanlagt hjá þeim íbúum Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar sem tóku þátt í nafnakönnun á nýtt sameinað sveitarfélag samhliða forsetakosningunum í gær.Á kjörskrá voru 3618 og þar af greiddu 2232 atkvæði eða 62%. Öllum íbúum sveitarfélaganna 16 ára og eldri var gefinn kostur á að taka þátt í valinu í gær.
Kosið var með raðvali þar sem kjósendur gátu merkt við tvo valkosti af þeim sex sem í boði voru og tekið fram hvorn kostinn þeir vildu helst. Talið var samkvæmt því, annars vegar hve mörg atkvæði nafn fékk sem fyrsta val, hins vegar samanlagt. Reyndar var þó aðeins rúmur helmingur þátttakenda sem valdi tvö, aðrir létu eitt duga.
Mismunandi aðferðir breyttu þó engu um röðun nafnanna sex og fór svo að Múlaþing varð hlutskarpast, fékk 675 atkvæði sem fyrsta val og 1028 atkvæði samanlagt. Í öðru sæti varð Drekabyggð með 559 atkvæði sem fyrsta val og 774 atkvæði samanlagt.
Nafnanefnd, sem skipuð var til að halda utan um nafnavalið, hefur nú lokið störfum og skilað af sér. Könnunin er ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sem kosin verður í september og tekur til starfa í október, sem aftur sendir tillögu sína til sveitarstjórnarráðherra til endanlegrar ákvörðunar.
Úrslit nafnakönnunarinnar
Nafn Fyrsta sæti Samanlagt
Múlaþing 731 1028
Drekabyggð 619 774
Austurþing 405 645
Múlaþinghá 187 332
Múlabyggð 164 329
Austurþinghá 54 131