Múlaþing komi með öflugum hætti að rekstri Tækniminjasafnsins
„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar leggur á það þunga áherslu að nýtt sveitarfélag (Múlaþing) komi með öflugum hætti að uppbyggingu Tækniminjasafnsins svo tryggja megi framtíð þess og rekstur.“Þetta segir í greinargerð bæjarstjórnarinnar um menningarmál á Seyðisfirði. Austurfrétt hefur áður fjallað um fjárhagserfiðleika Tækniminjasafnsins sem glímt hefur við langvarandi vanda m.a. vegna skorts á rekstrarfé frá hinu opinbera. Síðasta sumar var sérstaklega erfitt þar sem ein af tekjustoðum safnsins, komur gesta af skemmtiferðaskipum, datt alveg niður.
„Tækniminjasafn Austurlands er áhugavert og mikilvægt safn með gífurleg tækifæri til að eflast og dafna, samfélaginu öllu til góða. Það glímir við talsverð uppsöfnuð fjárhagsvandræði sem helgast m.a. af því að framlög frá ríkisvaldinu og atvinnulífinu sem var helsta fjármögnun þess er nánast horfin,“ segir í greinargerðinni.
Einnig kemur fram að fjármagn sem safnið hefur fengið frá sveitarfélaginu er grundvöllur rekstrar þess, auk annarra sértekna safnsins, en dugar ekki til að tryggja rekstur þess og faglegt starf vegna fyrrgreinds samdráttar í framlögum.
Í greinargerðinni er ennfremur bent á að um þessar mundir stendur yfir endurskoðunar- og skipulagningarvinna sem mun leiða af sér stefnumörkun og markvissa og raunhæfa aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma fyrir safnið.