Múlaþing samþykkir að greiða hluta löggæslumyndavéla í Fellabæ

Meirihluti umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings hefur samþykkt að veita leyfi til uppsetningar á löggæslumyndavélum í Fellabæ og jafnframt að sveitarfélagið greiði helming kostnaðar við að koma þeim fyrir.

Það var embætti Lögreglustjórans á Austurlandi sem óskaði eftir heimild til að koma fyrir slíkum vélum í síðasta mánuði en lögregluyfirvöld fóru einnig þess á leit að sveitarfélagið greiddi allan kostnað vegna þess.

Fjórir af sjö nefndarmönnum ráðsins féllust á beiðnina að hluta til fyrr í vikunni og skal taka kostnaðinn við kaup og uppsetningu inn í fjárhagsáætlun næsta árs. Ekki stendur þó til að greiða fyrir rekstur vélanna né heldur uppsetningu fleiri slíkra véla í framtíðinni. Rökin að þessu sinni þau að með þessu móti væri komið á samstarf milli sveitarfélagsins og lögreglu til að auka öryggi borgaranna ekki síður en leggja lögreglunni lið.

Einn nefndarmaður, Ásdís Hafrún Benediktsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Benedikt V. Warén, létu bæði bóka óánægju með að sveitarfélagið tæki þátt í slíku enda sé það á forræði ríkisins að fjármagna slík verkefni. Nóg væri af öðrum brýnum verkefnum sem hægt væri að nota peninga til.

Löggæslumyndavélar með númeraálestri verða settar upp í Fellabæ innan tíðar. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.