Munu bæta mögulegt tjón af flúormengun

janne.jpg

Tvö heysýni sem tekin voru nýverið í Reyðarfirði reyndust innihalda flúorgildi yfir viðmiðunarmörkum. Mengunin er rakin til álvers Alcoa Fjarðáls. Forstjóri fyrirtækisins segir að fyrirtækið muni bæta bændum það tjón sem þeir kunni að hafa orðið fyrir.

Á vef Matvælastofnunnar kemur fram að samkvæmt reglugerð um óæskileg efni í fóðri eru hámarksgildi flúors í fóðri 50 mg/kg fyrir nautgripi, geit- og sauðfé en 30 mg/kg ef dýrin eru mjólkandi.
 
„Safnað var sýnum af flestum túnum á svæðinu og sýna niðurstöður mælinga að magn flúors var í öllum tilfellum undir hámarksgildum (<50 mg/kg). Í tveimur mælingum af sautján reyndist magn flúors yfir mörkum fyrir mjólkandi dýr (>30 mg/kg eftir endurútreikning miðað við 88% þurrefni fóðurs). Í báðum tilfellum var um að ræða tún sem hestamenn í Reyðarfirði heyja fyrir hross en mælingarnar eru vel undir hámarksgildum fyrir fóður sem ætlað er hrossum.“
 
Samkvæmt upplýsingum frá ALCOA mældust hæstu gildin í heyrúllu sem kom frá Sléttunesi þar sem gildið var 44 µg/g og 45 µg/g úr heyrullu sem kom frá Seljateigshjáleigu.
 
Í tilkynningu Matvælastofnunnar segir að niðurstöðurnar á heyi „gefa ekki tilefni til breyttrar afstöðu Matvælastofnunar. Ekki er tilefni til að ætla að fólki stafi hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta af svæðinu og telur stofnunin ekki ástæðu fyrir bændur að breyta búháttum sínum, fóðrun eða beitarvenjum. Hins vegar er mikilvægt að fyrirbyggja uppsöfnun flúors í lífríkinu og að fyrirtæki viðhaldi viðeigandi vöktunaráætlun og tækjabúnaði til að halda mengandi starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi frá Umhverfisstofnun kveða á um.“
 
Á íbúafundi, sem haldinn var á Reyðarfirði á sunnudag, voru upp vangaveltur um það hvort bændur hafi orðið fyrir afpöntunum á heyi. Það hefur ekki fengist staðfest en Janne Sigurðsson, forstjóri ALCOA, segir að ef svo er þá mun ALCOA bæta það. „Ef tjón hefur orðið sökum þessarar mengunar munum við bæta það tjón“ segir Janne.
 
Sigurður Baldursson, bóndi á Sléttu, mætti á íbúafundinn og í samtali við vikublaðið Austurgluggann sagðist hann ánægður með fundinn. Hann sagðist bíða eftir endanlegri greininga á niðurstöðum mælinga en tók það fram að hann hefði hvorki orðið fyrir tjóni né teljanlegum óþægindum sökum mengunarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar