Myglusveppur fundinn á leikskólanum Skógarlandi

skogarland_leikskoli_egs.jpg
Myglusveppur hefur fundist á leikskólanum Skógarlandi. Starfsmönnum var tilkynnt þetta á fundi síðdegis og bréf sent til foreldra í kvöld. Myglan fannst á nokkrum stöðum í húsnæðinu þótt sérfræðingar væru ítrekað búnir að skoða það.

Í bréfi frá bæjaryfirvöldum segir að „ítarleg og endurtekin skoðun“ hafi farið fram á húsnæðinu „vegna fyrirspurna“ um hugsanlega myglumyndun.
 
Það voru Heilbrigðiseftirlit Austurlands, Þorsteinn Erlingsson byggingaverktaki og Sylgja Sigurjónsdóttir frá Húsi og heilsu sem skoðuðu skólann ásamt framkvæmda- og þjónustufulltrúa sveitarfélagsins.

Við slíka skoðun kom í ljós vísbendingar um raka og byrjun á myglumyndun við hvíldarrými á deildinni Lyngi. Þá hafi verið bent á rakamyndun í vegg í starfsmannaðstöðu.

Ráðist var í viðgerð á þessum svæðum. Í starfsmannarýminu fundust frekari merki um raka plötuklæðningu. „Þegar opnað var kom í ljós myglusveppur í efri plötu í loftasamsetningunni sem er gerð úr birkikrossviði.“
 
Þá var ráðist í ítarlegar skoðanir á þeim svæðum sem ekki höfðu verið skoðaðar í fyrri skoðunum, það er deildirnar Barr og Lauf auk starfsmannaaðstöðunnar. Um þá skoðun sáu starfsmenn Tréiðjunnar Einis, sem unnu að viðgerðinni og sviðsstjóri bæjarins.

„Í þessari skoðun komu í ljós merki um myglu á tveimur stöðum í loftrými á Laufi, auk þess í loftrými í þvottahúsi við hliðina á kaffiaðstöðu starfsfólks og einn blettur í tæknirými.
 
Á Barri fannst myglublettur á bak við gólfdúksrenning, undir glugga. Sá raki getur verið til kominn við blautþrif ef gólfdúksrenningur er ekki nægilega þéttur við vegg.“

Í bréfin segir að þegar séu hafnar viðgerðir á þeim stöðum þar sem hægt sé og þeim verðu hraðað eins og „kostur er og aðstæður leyfa.“

Leikskólinn var opnaður haustið 2005 en hann var byggður af ÍAV líkt og íbúðarhús í Norðurtúni sem mikið hafa verið hafa verið í umræðunni. Þar hefur myglan verið rakin til birkikrossviðar í þökum, líkt og um virðist vera að ræða á leikskólanum.

Meðal annars af þessum orsökum höfðu ítrekað verið tekin sýni á leikskólanum í vetur en ekkert fundist fyrr en nú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar