Nauðsynlegt að greina stöðuna eftir aðventustorminn
Þrátt fyrir að Austurland hafi sá landshluti sem slapp hvað best úr úr miklu óveðri sem gekk yfir landið fyrir sléttum mánuði þrýsta forsvarsmenn sveitarfélaga á svæðinu á um að farið verið ítarlega yfir hvað gera þurfi til að koma í veg fyrir álíka vandræði og urðu víða annars staðar um land þar sem raflínur eyðilögðust þannig jafnvel varð rafmagnslaust dögum saman.Þannig hafa bæði bæjarráð Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar beint því til Almannavarnanefndar Austurlands að greining verði gerð á stöðu landshlutans þegar kemur að því að takast á við slíkt óveður.
„Við sluppum vel en í ljósi þess sem menn lentu í fyrir norðan okkur viljum við að sest verði yfir málin, þau greind og metin þannig að hægt sé að bregðast við áður en við lendum í einhverju svipuðu,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði.
„Sem betur fer komu ekki upp nein stórkostleg mál á okkar svæði en við megum ekki hætt að hugsa um þessi mál, heldur setjast yfir þau og fara í þær aðgerðir sem þarf áður en til vanda kemur.“
Óttuðust meira rafmagnsleysi
Aðgerðastjórn á Austurlandi kom saman á Egilsstöðum klukkan fjögur aðfaranótt miðvikudagsins 11. desember til að vera við öllu búin ef verstu spár rættust. Svo fór ekki en Björn segir að menn hafi nýtt tímann þar til að ræða málin. „Ég get alveg viðurkennt að við óttuðumst að rafmagnið færi hressilegar út en það gerði,“ segir hann en rafmagnslaust var á nær öllu Austurlandi í um þrjá tíma þann dag.
Hann segir að mestar áhyggjur séu af raforkunni og meðal annars hafi verið spurt hvort raflínur séu lagðar með eins mikið öryggi í huga og hægt sé, til dæmis með að leggja þær í jörðu. „Oft er ekki brugðist við fyrr en skaðinn er skeður og þá meira lagt í jörðu.“
Eins hafi verið rætt um staðsetningu varaflstöðva. Almennt séu slíkar stöðvar frekar til taks úti við sjóinn en inni í landi. Björn segir þrjár varaaflstöðvar vera á Héraði, við flugvöllinn, við heilsugæsluna og fyrir aðgerðastjórnina. Auk þessa séu sumir bændur með varaafl og dælustöðvar Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Þær eiga að duga til þess að tryggja að hiti haldist í húsum í þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellabæ en til skoðunar sé hvort það þurfi að vera öflugra.
Þarf að athuga tengingu við virkjunina
Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir að samkvæmt upplýsingum frá Rarik sé þar sé til staðar 600 KW varaafl. Það dugi til að sjá bænum fyrir rafmagni ef til þess komi og halda fjarvarmaveitunni gangandi. Stöðin þyrfti hins vegar að vera 1000 KW ef vel ætti að vera.
Þá er til staðar samningur við Íslenska orkuvirkjun um að kaupstaðurinn eigi að geta fengið rafmagn úr Gúls- og Bjólfsvirkjun sem framleiðir 10 MW. Því ákvæði hafi þó aldrei verið fylgt eftir þannig að tengingar vantar. Verði þrýst á að þær komi ættu Seyðfirðingar að vera í ágætum málum. Stærsta öryggismál þeirra séu þó sem fyrr að fá jarðgöng undir Fjarðarheiði.
Almannaþjónusta frekar en hagnaður
Þá skrifar Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hann hvetur til þess að ráðist verði í úrbætur til að tryggja að heilu landssvæðin verði ekki án rafmagns og fjarskipta svo dögum skipti þegar slíkt veður komi næst.
„Þær úrbætur þarf að vinna hratt og geta ekki flækst í nefndum á vegum stjórnkerfisins um ókominn tíma þar sem þær verða vegnar í töflureiknum á alla kanta í innbyrðis slag ráðuneyta. Við erum nefnilega að tala um heimili og lífsviðurværi fólks sem við ætlum að gera kleift að geta búið um allt land.“
Jón Björn segir að strax verði að styrkja flutningskerfi raforku þar sem hagsmunir heildarinnar séu forgangi en ekki sérhagsmunir einstakra landeiganda sem jafnvel búi ekki á jörðum sínum. Þá þurfi að setja öryggisfjarskipti í forgang og slaka á hagnaðarkröfum opinberra orkufyrirtækja til að þau byggi upp varafl og hafi mannskap til staðar til að takast á við erfiðar aðstæður.