„Nauðsynlegt að halda áfram að hugsa stórt“

Skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum segir stöðuga þróun lykilinn að farsælu skólastarfi. Haldið var upp á 40 ára afmæli skólans síðasta fimmtudag.

Skólinn var settur í fyrsta sinn 14. október árið 1979. Haldið hefur verið upp á afmælið með tvennum hætti, í vor var hátíð í Valaskjálf þar sem menningar- og félagslífi skólans var gert hátt undir höfði en á fimmtudag var dagskrá á sal skólans.

Þegar skólinn var settur í fyrsta sinn voru þar 99 nemendur, þar af um 50 í heimavist. Margir þeirra komu úr Reykholti í Borgarfirði þar sem Vilhjálmur Einarsson, fyrsti skólameistari ME, hafði verið skólastjóri. Í dag eru nemendur í dagskóla um 200 en hafa mest verið rúmlega 300.

Í ávarpi sínu á fimmtudag sagði Árni Ólason, núverandi skólameistari, að hann hefði gjarnan viljað sjá fleiri nemendur í dagskóla nú. Á móti stundi margir fjarnemar nám við skólann, en þeir eru ánægður með spannakerfi skólans þar sem áfangar eru kenndir af miklum krafti í stuttan tíma.

Skólinn hefur einnig þróað opna tíma, eða verkefnatíma, í áranna rás. Árni sagði stöðuga þróun vera lykil að farsælu starfi skólans. „Ég er þess fullviss að næstu 20 árin verði álíka farsæl og verið hefur ef menn halda áfram að hugsa stórt og reyna sífellt að gera betur,“ sagði hann.

Endurskoðun námsframboðs framundan

Árni sagði skólastarfið gróskumikið um þessar mundir og framundan væri skoðun á kennslu og kennsluháttum, þar á meðal endurskoðun kennsluáætlana og námsframboðs. Þá var í haust í fyrsta sinn nýtt ný tæknismiðja til kennslu í markmiðlunar- og hönnunaráföngum.

Árni þekkir skólann vel, enda var hann nemandi sem bjó á heimavistinni árið 1979, síðar íþróttakennari með umsjón með heimavistargæslu og loks skólameistari. Í hans huga er það þó ekki bara námið sem býr til góðan skóla. „Góður skóli er fyrir mér samfélag þar sem nemendur þrífast og vaxa sem manneskjur gegnum nám og samskipti við góða kennara og ekki síður gegnum öflugt félagslíf.“

Fleiri tóku undir orð Árna. Ásta María Reynisdóttir, fulltrúi menntamálaráðuneytisins, sagði ME löngum hafa verið framarlega í skólaþróun og tiltók þar meðal annars spannakerfið.

Skólinn mikilvægur fyrir félagslíf á Fljótsdalshéraði

Á milli ræðuhaldanna komu fram núverandi nemendur í skólanum og fluttu bæði frumsamin ljóð og lög eftir fyrrum nemendur skólans. Þá söng kór skipaður starfsfólki í skólanum.

Stefán Bogi Sveinsson, fyrrum nemandi við skólann og núverandi forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, færðu skólanum í tilefni dagsins mynd af gjöf. Hún er tekin 18. október árið 1975 og sýnir þáverandi menntamálaráðherra, Vilhjálm Hjálmarsson, taka fyrstu skóflustunguna að skólanum ásamt fólki úr nærsamfélaginu.

Þá tilkynntu þeir að sveitarfélagið myndi framvegis kosta árlega viðurkenningu til nemanda sem hefði lagt sérlega mikið til félagsmála. Stefán Bogi sagði skólann skipta máli fyrir samfélagið allt á Héraði, allt sem þar fram færi auðgaði mann- og menningarlíf svæðisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.