Nemandi Nesskóla hélt ræðu á Menntaþingi 2024
Menntaþing 2024 fór fram í Reykjavík í lok september síðastliðinn en þar kynntu ýmsir aðilar sýn sína á hvernig bæta mætti menntun í landinu til frambúðar. Fyrstu ræðumenn þingsins voru tveir unglingspiltar en annar þeirra stundar nám við Nesskóla í Neskaupstað.
Þar um að ræða þá Kristinn Andra Sverrisson frá Hellu og Valgeir Elís Hafþórsson frá Neskaupstað en þeir komu fram á þinginu sem fulltrúar ungmennaráðs Samfés sem eru landssamtök félagsmiðstöðva og ungmenna.
Piltarnir lýstu í stuttu máli sinni sýn á skólakerfið en Kristinn er sextán ára og nýbyrjaður í framhaldsskóla meðan Valgeir er fimmtán ára á lokaári sínu í grunnskóla.
Valgeir hafði nokkra sögu að segja því hann hefur verið í sjö mismunandi grunnskólum á sínum námsferli og orðið þess var að töluverður munur getur verið á milli skóla varðandi kennsluhætti.
„Ég er búinn að vera á miklu flakki í grunnskólum. Ég hef verið í sjö grunnskólum á minni grunnskólagöngu. Ég hef tekið eftir að kennarar eru ekki alltaf alveg eins. Það er mikið álag á kennurum að kenna mörgum bekkjum en svo ef þú ert að færa þig um skóla eins og ég færðist síðast um skóla í sjöunda bekk frá Akureyri yfir á Neskaupstað og núna í dag er ég byrjaður að læra sama námsefni sem þau eru búin að læra. Ég byrjaði ekki í dönsku fyrr en í áttunda bekk en ég veit að það er kannski aðeins öðruvísi í öðrum skólum. En það mætti kannski reyna að laga að hafa allt efni á sama tíma eins og til dæmis í framhaldsskóla þar sem allir eru að læra það sama í sama tíma.“
Valgeir kom líka inn á meiri hjálp þyrfti til handa þeim sem glíma við námsörðugleika af einhverju tagi.
„Það er margt gott í grunnskóla en margt líka ekki nógu gott. Mér finnst að það mætti leggja meiri áherslu á að hjálpa krökkum sem eru, til dæmis, með námserfiðleika. Mikið af krökkum fá þá hjálp sem þeim vantar en ég upplifi að krakkarnir sem ekki eru greindir með námserfiðleika fá ekki eins mikla hjálp til að skilja námsefnið vel.“
Kristinn til vinstri og Valgeir til hægri í ræðupontu á þinginu. Fengu þeir gott lófaklapp að loknu erindi sínu. Skjáskot