Nemendum þykir mikið sport að vera í eins vettlingum

Kvenfélag Reyðarfjarðar afhenti leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði áttatíu pör af vettlingum á dögunum. Eru þeir hugsaðir til þess að lána á litlar hendur þegar á þarf að halda.


„Við förum stundum út tvisvar til þrisvar á dag og eiga vettlingarnir það til að blotna. Nemendur eru kannski ekki alltaf með pör til skiptanna. Það kom svo hugmynd frá starfsmanni hvort ekki væri sniðugt að leikskólinn ætti vettlinga til þess að lána í slíkum tilfellum. Við sendum því fyrirspurn á Kvenfélag Reyðarfjarðar þess efnis hvort þær væru tilbúnar til að aðstoða okkur við þetta verkefni. Eins og þeirra er von og vísa tóku þær vel í verkið og fengum við afhent 80 pör í þremur mismunandi litum um daginn,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri. Leikskólavettlingarnir verða geymdir í fataklefunum þar sem starfsfólk getur lánað þá þegar þörf er á.

Lísa Lotta segir leikskólann einnig alltaf vera að leita leiða til þess að verða ennþá grænni skóli og falli þetta verkefni innan þess. „Þetta eru mjög endingargóðir vettlingar sem auðvelt er að þrífa og ennþá betri kostur en plastvettlingarnir sem eru í umferð.“

„Þau eru alveg himinlifandi“
Aðspurð um viðbrögð barnanna við þessari skemmtilegu nýjung segir hún: „Þau eru alveg himinlifandi og þykir þetta spennandi. Vettlingarnir komu í þremur litum; gulum, grænum og gráum. Í síðustu viku fór heill hópur með gula vettlinga í gönguferð og þótti það alveg ferlega mikið sport að allir væru eins.“

Hlýnar í hjartanu að vinna verkefni fyrir börn
Kvenfélagskonan Jóhanna Sigfúsdóttir hélt utan um verkefnið, en alls tóku þrettán konur úr félaginu þátt í því.

„Auðvitað var þetta vinna en alveg frábært að konurnar vildu taka þátt. Manni hlýnar í hjartanu að vinna að verkefni fyrir börn og vonandi koma vettlingarnir að góðu gagni. Ég held að allir séu ánægðir en við komum saman nokkrum sinnum til þess að prjóna. Við prjónuðum úr garni frá Rúmfatalagernum vegna þess að lopinn þófnar en þessa vettlinga er hægt að þvo í þvottavél án þess að þeir breytist.“

Það voru þau Mattías Hrafn Kristbjörnsson, Sarah Mehica, Viktoría Von Eirbekk Davíðsdóttir og Björg Inga Óskarsdóttir sem tóku á móti gjöfinni frá kvenfélagskonunum Ingunni Karítas Indriðadóttur, Jóhönnu Sigfúsdóttur og Sigurbjörgu Hjaltadóttur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar