Nenad hættur hjá Hetti: Fannst sem það vantaði nýtt blóð
Nenad Zivanoic, þjálfari Hattar í annarri deild karla í knattspyrnu, hefur komist að samkomulagi við stjórn félagsins að láta af störfum þegar í stað. Gamalreyndir Hattarar taka við liðinu með það að markmiði að bjarga því frá falli.Tilkynnt var um starfslok Nenads, sem tók við liðinu fyrir tímabilið 2017 í gærkvöldi. Liðið dróst niður í fallsæti um helgina eftir að hafa tapað þriðja leiknum í röð.
„Hann tilkynnti okkur fyrir tveimur vikum að hann vildi ekki halda áfram að loknu tímabilinu. Gengi liðsins hefur ekki verið burðugt og við vildum athuga hvort það lagaðist í næstu tveimur leikjum þar á eftir.
Við kölluðum hann á fund eftir leikinn um helgina. Þar bauðst hann til að hætta og við samþykktum það,“ segir Guðmundur Björnsson Hafþórsson, stjórnarformaður.
Guðmundur segir að Nenad hafi verið gegnheill í vinnu sinni fyrir félagið og gangi sáttur frá borði en því miður hafi virst sem liðið hafi ekki haft trú á verkefnum sínum. Því hafi þurft að fá nýtt blóð.
Jón Karlsson mun stýra liðinu í næsta leik og trúlega út tímabilið, þótt það sé ekki enn staðfest. Við hlið hans verði Vilmar Freyr Sævarsson og Brynjar Árnason. Höttur leikur gegn Kára á Akranesi á sunnudag.
Jón er uppalinn Djúpavogsbúi sem lék með Hetti árin 2006-8 og stýrði liði KH sumarið 2012. Þá stjórnaði Jón Hetti af bekknum einum leik sem vannst síðsumars 2013 þegar Höttur var, líkt og nú, í fallbaráttu annarrar deildar. Birkir Pálsson var þá spilandi þjálfari. „Við höfðum samband við Jón strax í gær og hann sagði að sér væri ljúft og skylt að taka verkefnið að sér.“
Jón býr í Reykjavík en Brynjar Árnason, fyrirliði, mun sjá um æfingar eystra og vera skráður þjálfari með Jóni. Í útileikjum verður Vilmar Freyr Sævarsson, fyrrum leikmaður Hattar, Jóni til aðstoðar. „Við ætlum að reyna að pumpa smá Hattarblóði í þetta.“
Nenad hefur einnig þjálfað fjórða flokk karla hjá Hetti. Í samtali við Austurfrétt sagði Guðmundur að starfslok hans hjá meistaraflokki hefðu ekki áhrif á þá þjálfun.