Nettó opnar á Egilsstöðum

netto_opnun_felagasamtok_web.jpgVerslanakeðjan Samkaup opnaði um helgina Nettó verslun í húsnæðinu sem áður hýsti kjörbúð Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum. Verslunin hefur fengið algjöra andlitslyftingu.

 

„Miklar breytingar hafa verið gerðar á versluninni. Aðstaða fyrir viðskiptavini hefur verið bætt og innkaupavögnum fjölgað. Grænmetistorg hefur verið stór endurbætt og meðal annars sett upp úðunarkerfi til að viðhalda lengur ferskleika ávaxta og grænmetis. „Bakað á staðnum“ hefur verið endurinnréttað og öflug tilboð verða í boði. Kjötdeild og mjólkurtorg hefur verið fært innan verslunarinnar, það stækkað og því breytt. Nýjar innréttingar hafa verið settar upp í allri versluninni, ný gólfefni lögð á allt rýmið og lögð verður áhersla á gott úrval sérvöru á góðu verði,“ segir í tilkynningu frá Samkaupum.

Þar er fjölda manns þakkað fyrir átakið við breytingarnar á búðinni. „Mjög ánægjulegt var að sjá samheldni allra þeirra starfsmanna sem komu að breytingunum úr alls um 10 verslunum víðsvegar um landið. Allt það starfsfólk sem kom að þessu verkefni eiga heiður skilið fyrir vel unnin störf og geta verið stolt af niðurstöðunni.“

Ekkert kjötborð er þó í nýju versluninni og hafa þó nokkrir Héraðsbúar viðrað eftirsjá sína að því. Erfitt er því að nálgast ferskt kjöt og fisk á Egilsstöðum um þessar mundir.

Samkaup er í eigu Kaupfélags Suðurnesja og Kaupfélags Borgfirðinga. Kaupfélag Héraðsbúa átti hlutdeild í fyrirtækinu um skeið á meðan reknar voru verslanir undir merkjum Samkaupa víða um Austurland. Eftir að KHB fór í nauðasamninga í byrjun árs 2009 yfirtók Samkaup allan rekstur búðanna.

Félagsmenn í KHB fá sent afsláttarkort sem veitir 2% afslátt í verslunum Samkaupa um allt land. Auk þess munu Samkaup bjóða félagsmönnum reglulega sértilboð með auknum afslætti. Kortinu þarf að framvísa við afgreiðslu á kassa.

Samkaup úthlutaði einnig styrkjum til fjögurra félagasamtaka á Fljótsdalshéraði við opnunina: Leikfélags Fljótsdalshéraðs, körfuknattleiksdeildar og unglingaráðs Hattar og í styrktarsjóð Rauða krossins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar