Nítján milljónir í hönnun nýs Tækniminjasafns

Tækniminjasafn Austurlands fékk í gær úthlutað nítján milljóna styrk frá íslenska ríkinu úr sérstakri úthlutun til hönnunar nýs húsnæðis undir starfsemi sína. Safnið hefur verið á hrakhólum síðan í desember 2020 þegar stóra skriðan sem féll á Seyðisfjörð eyðilagði mestan hluta húsnæðisins.

Tækniminjasafnið á í dag aðeins Vjelsmiðju Jóhanns Hanssonar, sem byggð var árið 1906. Húsið stórskemmdist í skriðunni og um tíma var áformað að rífa það. Frá því var horfið, enda flokkast það sem menningarminjar, og eru nú hafnar endurbætur á því til að tryggja öryggi þess.

Eftir skriðurnar var skipuð nefnd á vegum sveitarfélagsins Múlaþings um færslu húsa af hættusvæðum. Meðal þess sem nefndin lagði til að yrði sett í forgang er flutningur bryggjuhússins Angró á Lónsleiru þar sem það gæti nýst undir safnakost. Nefndin benti einnig á að hægt væri að stækka landfyllinguna þar svo hægt væri að stækka safnasvæðið, annað hvort með fleiri húsum eða utandyra.

Þær hugmyndir hafa verið unnar áfram af starfsfólki Tækniminjasafnsins sem hefur óskað eftir að því við byggðaráð Múlaþings að fá úthlutað bæði Angró og lóð undir það á Lónsleiru.

„Við erum afskaplega glöð og þakklát fyrir þennan stóra styrk og vonumst til að safnið rísi á ný með aðstoð okkar góða samfélags,“ segir Efla Hlín Sigrúnar Pétursdóttir safnstjóri. „Það er mikils virði að finna stuðninginn við safnið eftir þetta mikla áfall sem aurskriðurnar voru.“

Um er að ræða sérstakan styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem ráðherra ferðamála-, viðskipta- og menningarmála veitir. Fyrir hafði Tækniminjasafnið fengið þrjár milljónir í verkið frá Hvatasjóði Seyðisfjarðar.

Forsvarsfólk safnsins vonast til að vel hannað safn með fallega ásýnd verði Seyðisfirði til sóma og til framtíðar einn fjölsóttasti ferðamannastaður Austurlands auk þess að gegna viðamiklu hlutverki í íslensku safnastarfi.

Hugmyndirnar verða kynntar á opnum fundi á Hótel Öldunni á morgun klukkan 16:00. Þar mun Gunnlaugur Björn Jónsson, arkitekt hjá Gingi teiknistofu, fara yfir fyrstu drög að nýju safnahúsi.

Um leið býður Tækniminjasafnið gestum þar í gamaldags kaffihlaðborð á meðan birgðir endast, í tilefni af alþjóðlega safnadeginum. Vonir safnsins standa til þess að þarna náist samtal við nærsamfélagið um framtíðaráform safnsins.

Safnasvæðið fór illa í skriðunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.