Níu í prófkjöri Pírata

Níu einstaklingar taka þátt í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi. Það hófst í dag og stendur til þriðjudags.

Frambjóðendum gafst í dag tækifæri að kynna sig á kosningafundi sem Píratar stóðu fyrir í Reykjavík eða með að senda inn myndband á þann fund. Fimm af níu frambjóðendum kjördæmisins nýttu þann valkost.

Fyrstur þeirra var Viktor Traustason, sem vakti athygli í vor er hann bauð sig fram til forseta Íslands. Viktor sagðist ekki sækjast eftir oddvitasætinu, hann hefði aðeins farið inn á vef Pírata og skráð sig í prófkjör. Viktor hefur að mestu búið á Austurlandi síðustu tvö ár og starfað þar í sláturhúsi og við fiskvinnslu.

Theodór Ingi Ólafsson býr í Reykjavík en er ættaður frá Akureyri. Hann starfar sem forstöðumaður í íbúðakjarna fyrir geðfatlaða. Hann býður sig fram í oddvitasætið.

Adda Steina er fyrrum tómstunda- og forvarnarfulltrúi Fljótsdalshéraðs. Hún sagðist taka hvaða sæti sem er en „tæki efsta sætinu fagnandi.“

Bjarni Arason, sem er lærður slökkviliðsmaður og ferðamálafræðingur á Grenivík og Aðalbjörn Jóhannsson úr Norðurþingi, háskólanemi sem starfað hefur í menntakerfinu, tóku ekki fram sérstök sæti en þeir kynntu sig á myndbandi.

Að auki eru í framboði Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, fyrrum varaþingmaður flokksins í kjördæminu, Júlíus Blómkvist Friðriksson, sölumaður hjá Tölvuteki á Akureyri og Lena Sólborg Valgarðsdóttir, leikskólastjóri í Kópavogi.

Kosning í prófkjörinu hófst klukkan 16:00 og stendur í tvo sólarhringa. Það er bindandi fyrir fimm efstu sætin en kjörstjórn raðar í önnur sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.