Njáll Trausti: Markmiðið að klára fjárlögin minnst tveimur vikum fyrir kjördag

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar, trúir því að þingmenn verði samhentir í því verki að klára fjárlög næsta árs áður en gengið verður til kosninga. Ný ríkisstjórn geti síðan gert breytingar á henni. Hann segir að sitjandi ríkisstjórn hafi verið komin á endastöð.

„Það hefur stefnt í þetta lengi. Nýr formaður VG (Svandís Svavarsdóttir) lagði línurnar fyrir tveimur vikum þegar hún gaf út að flokkurinn ætlaði ekki að gera meira í hælisleitenda eða orkumálum í vetur. Þar með var ljóst að erfitt yrði að vinna í þessari stjórn.

Miðað við samskiptin undanfarna daga og vikur þá hlaut að koma að þessu. Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki skipa sér fyrir verkum með þessum hætti,“ segir Njáll Trausti aðspurður um stjórnarslitin.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til skyndifundar seinni part föstudags. Njáll Trausti segir að þar hafi Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, fengið umboð „til að fara yfir málin.“ Njáll Trausti segist hafa stutt tillögur formannsins en stjórnarsamstarfinu var endanlega slitið á sunnudag.

Leggur upp vinnu fjárlaganefndar


Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur gefið það út að ráðherrar hennar taki ekki þátt í ríkisstjórninni sem starfar þar til ný hefur verið mynduð. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gera það hins vegar. Þar með er orðin til eins konar minnihlutastjórn sem þarf að semja við stjórnarandstöðu flokka um framgang þingmála.

Stærsta þingmálið er fjárlagafrumvarp næsta árs sem æskilegt er að sé tilbúið fyrir kjördag, 30. nóvember. Frumvarpið gekk til fjárlaganefndar, þar sem Njáll Trausti er formaður, eftir fyrstu umræðu þingsins þann 13. september. Fyrir viku rann út sá frestur sem nefndin veitti til umsagnar.

„Síðustu 1-2 sólarhringa hef ég verið að leggja upp hvernig ég sé fyrir mér að fjárlaganefnd klári vinnu sína. Hún fundar síðar í vikunni um tímaáætlunina. Ég myndi vilja ná að klára fjárlögin að minnsta kosti tveimur vikum fyrir kosningar og hef trú á að það takist.“

Á von á að fjárlög verði samþykkt en frekar breytt síðar


Hann segir mikilvægt að klára fjárlögin í tíma til að tryggja samfellu í rekstri ríkisins og mikilvæg verkefni stöðvist ekki þar sem ekki séu fjárheimildir til staðar frá 1. janúar. „Við viljum ekki lenda í því. Að ætla að klára fjárlög eftir kosningar og fyrir áramót væri flókið verkefni sem sumir hafa lýst sem ógerlegu.“

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa samanlagt 30 þingsæti en 32 atkvæði þarf fyrir meirihluta. „Að klára fjárlögin er stórt og flókið verkefni, þau eru stærsta verkefni hvers árs í þinginu, en mér hefur heyrst á þingmönnum að þeir skilji ábyrgð sína. Vonandi náum við góðri niðurstöðu í nefndinni og stuðning í þingsal. Ég á ekki von á miklum breytingum á frumvarpinu heldur að ný ríkisstjórn taki fjárlögin upp og breyti þeim.“

Afar hæpið að samgönguáætlun fari í gegn


Njáll Trausti situr einnig í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins sem hefur samgönguáætlun til meðferðar. Afgreiðslu hennar var frestað fyrir þinglok í sumar enda hafði Svandís þá skömmu áður tekið við innviðaráðuneytinu af Sigurði Inga Jóhannssyni. Njáll Trausti segir að undanfarið hafi verið unnið að uppfærslu áætlunarinnar og það verk langt komið þótt áætlunin sjálf væri ekki komin inn í þingið. Hann býst ekki við að hún komi inn í þingið úr þessu. Hins vegar snúist vinnan um að tryggja fjármagn til að mikilvægar framkvæmdir stöðvist ekki. Núgilandi samgönguáætlun gildir til áramót.

Þá hefur verið að störfum sérstök verkefnastofa innviðaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um gjaldheimtu af samgöngum til framtíðar. Tillögur eru komnar fram um kílómetragjald, sem átti að taka upp um áramót, en ekki nákvæma útfærslu þess. Fyrir áramót var einnig von á tillögum um gjaldheimtu af sérstökum framkvæmdum, svo sem jarðgöngum. Njáll Trausti segir þessi mál á borði efnahags- og viðskiptanefndar og von hafi verið á frumvarpi um kílómetragjaldið í þessum mánuði. Óvíst sé um það eins og mörg önnur verkefni eftir stjórnarslitin.

„Samfellan hverfur og verkefni rakna upp þegar ríkisstjórn er slitið en það varð ekki lengra farið með þessa ríkisstjórn,“ segir hann að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar