Njáll Trausti skipar annað sæti Sjálfstæðisflokksins

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, verður í öðru sæti á lista flokksins fyrir komandi þingkosningar. Kjörið var á kjördæmisþingi flokksins í Mývatnssveit í dag.

Fjögur voru í framboði. Njáll Trausti fékk 72 atkvæði. Hann var áður oddviti flokksins í kjördæminu en tapaði því sæti fyrr í dag til Jens Garðars Helgasonar, núverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Kaldvíkur.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sem skipaði annað sætið í síðustu kosningum og komst á þing, fékk 67 atkvæði. Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti flokksins í Múlaþingi og varaþingmaður og  Valgerður Gunnarsdóttir, fyrrum varaþingmaður voru einnig í kjöri. Aðeins eru gefin upp úrslit fyrir tvo efstu í kjörinu um sætið. Alls greiddu þó 167 atkvæði.

Kosið er um fimm efstu sætin á listanum á kjördæmisþinginu í dag. Þeim sem ekki ná sæti í tiltekið sæti gefst tækifæri á að bjóða sig fram í það næsta.

Fyrir þingið í dag höfðu Almar Marinósson frá Þórshöfn, Kristinn Karl Brynjarsson frá Reyðarfiðri og Akureyringarnir Jón Þór Kristjánsson, Ketill Sigurður Jóelsson og Telma Ósk Þórhallsdóttir boðið sig fram í þriðja sætið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.