Norðaustan 10: Ungt, menntað fólk sér tækifæri á heimaslóðum

nordaustan10_gardar_sigrun.jpg

Vöruþróunarverkefni, sem byggjast á austfirskum, hráefnum gera það eftirsóknarvert fyrir unga, nýmenntaða vöruhönnuði með rætur á Austurlandi að snúa aftur í heimahagana. Verkefnið Norðaustan 10 er dæmi um slíkt.

 

Norðaustan 10 er vöruþróunarverkefni þar sem hönnuðir komu saman á Norður- og Austurlandi til að vinna með fyrirtækjum að þróun söluvöru sem tengist svæðinu og eru að einhverju leyti unnar úr efnum sem svæðin bjóða upp á. Afrakstur þess var kynntur í versluninni EPAL á Hönnunarmars um helgina.

Af hálfu Austfirðinga tóku þátt hönnuðirnir Agla Stefánsdóttir, Garðar Eyjólfsson, Karna Sigurðardóttir, Sigrún Halla Unnarsdóttir, Ingunn Þráinsdóttir, Viktor Sebastian og Thibaut Allgayer. Austfirsku hönnuðirnir eru flestir um eða innan við þrítugt og nýútskrifaðir frá erlendum hönnunarskólum. 

„Ungir menntaðir hönnuðir koma heim og sjá tækifæri í sínu umhverfi,“ segja þau Garðar og Sigrún Halla sem stóðu vaktina um helgina. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð.“ Í framhaldinu verða annars skoðaðir möguleikar á fjöldaframleiðslu varanna.

Austfirsku hönnuðirnir unnu náið saman að sinni þróun sem endurspeglast í því hversu fjölbreyttar vörurnar eru. Meðal þess sem gaf að líta var tölvutaska úr hreindýraleðri sem fóðruð var með ull, lágborð úr lerki og áli og sjóarapoki að miklu leyti úr hreindýraleðri. Töskurnar eru meðal annars skreyttar með álsylgjum.

Það eru Þorpið og Nýsköpunarmiðstöð sem eru helstu bakhjarlar verkefnisins. „Þorpið skiptir mjög miklu,“ segja þau en það er í raun verkefni mótað utan um austfirska hönnun og hráefni.

Náið samstarf er við ýmis fyrirtæki og stofnanir til dæmis Freyju Jónsdóttir, klæðskera á Borgarfirði, Tækniminjasafn Austurlands, Mylluna, Skógrækt ríkisins, Þórhall Árnason og Markús Nolte smiði og vélarnar í Álfasteini voru meira að segja ræstar fyrir verkefnið.

Þá er ónefnt Fjarðaál en Garðar hefur sérstaklega velt fyrir sér álinu. „Markmið verkefnisins er meðal annars að bjóða álið velkomið í austfirsku efnaflóruna. Það er hægt að móta það á ýmsa vegu,“ segir Garðar sem er á leið til Svíþjóðar í samstarfsverkefni í vöruhönnun úr áli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.