Norræna siglir með farþega á ný

Ríflega tuttugu farþegar eru væntanlegir með Norrænu til Seyðisfjarðar þegar hún kemur þangað í næstu viku. Ferjan er með farþega um borð í fyrsta skipti í mánuð.

Stjórnendur Smyril-Line ákváðu að loka fyrir farþegaflutninga um miðjan mars til að stemma stigu við útbreiðslu covid-19 faraldursins og í ljósi landamæralokana danskra yfirvalda.

Þær eru enn í gildi og verða til 10. maí hið minnsta en stjórnendur Smyril-Line hafa ákveðið að taka upp farþegaflutninga á ný. Tíu dagar eru síðan smit greindist síðast í Færeyjum.

Ferjan er nú í heimahöfn í Þórshöfn en fer þaðan í kvöld til Danmerkur. Þaðan fer skipið aftur á laugardag. Færeyska ríkisútvarpið greindi frá því í gær að nokkrir farmiðar væru seldir.

Skipið fer síðan aftur frá Danmerkur á laugardag og stoppar í Færeyjum á mánudag áður en það kemur til Seyðisfjarðar á þriðjudagsmorgun. Linda B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril-Line á Íslandi, segir að 23 farþegar séu væntanlegir til Íslands í næstu viku. Allir eru á eigin vegum því engar hópferðir eru í gangi eins og er.

„Við höfum verið í nánu sambandi við Sóttvarnarlækni Íslands og Almannanefndar Austurlands um farþegaflutningana,“ segir Linda.

Engar sérstakar reglur eru í gildi um komur ferðamanna til Íslands um þessar mundir. Íslendingar þurfa hins vegar að fara í tveggja vikna sóttkví þegar þeir snúa heim. Sóttvarnalæknir hefur á upplýsingafundum síðustu daga minnt á að veiran hafi fyrst og fremst borist inn í landið með Íslendingum að snúa heim.

Á upplýsingafundinum í gær kom fram að öðru hvoru megin við helgina myndi sóttvarnalæknir senda heilbrigðisráðherra tillögur um reglur til lengri tíma um ferðalög til og frá útlöndum. Stjórnendur Smyril-Line bíða eftir að sjá þær, líkt og aðrir stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu. „Þegar það kemur í ljós þá verður hægt að horfa aðeins fram í vorið og sumarið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.