Nýr umsjónarmaður á Stórhóli
Þorsteinn Sigjónsson, bóndi að Bjarnanesi í Hornafirði, hefur tekið jörðina Stórhól í Álftafirði á leigu með öllum bústofni fram á haust. Hann tók við allri ábyrgð á búfjárhaldi á bænum um seinustu mánaðarmót. Yfirvöld hafa gert athugasemdir við aðbúnað á öðru austfirsku sauðfjárbúi.
Samkvæmt heimildum Agl.is var fyrirhuguð vörslusvipting á Stórhóli vegna ítrekaðra brota ábúenda á dýraverndunarlögum. Eftir vörslusviptingu í janúar voru þar 760 kindur.
Dýralæknar, á vegum Matvælastofnunar og Yfirdýralæknis, fóru í skoðunarferð á Selsstaði í Seyðisfirði í febrúar og gerðu athugasemdir við aðbúnað sauðfjár þar. Yfirdýralæknir staðfesti þetta í svari við fyrirspurn agl.is. Ábúendur hafa bæði fresti til úrbóta og andmæla.