Ný lausn á gjaldtöku fyrir umferð forsenda Fjarðarheiðarganga og Axarvegar

Nýtt fyrirkomulag á gjaldtöku fyrir umferð, sem til skoðunar er hjá sérstakri verkefnastofu, er forsenda þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og flýta gerð nýs vegar yfir Öxi. Innviðaráðherra vonast til að hægt verði að ná tökum á verðbólgu og þenslu í efnahagslífinu þannig að meira svigrúm skapist fyrir samgöngubætur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti drög að nýrri samgönguáætlun á þriðjudag. Helstu mál sem varða Austurland eru að Fjarðarheiðargöng eru áfram fremst í röð jarðganga en á þeim verður ekki byrjað fyrr en 2025. Í núgildandi samgönguáætlun voru göng áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð næst í röðinni en þau eru nú sjöundu í röðinni.

Í millitíðinni hefur verið unnið í greiningu á jarðgangakostum á Íslandi sem birtist í jarðgangaáætlun til 30 ára. Þar er tíu kostum forgangsraðað og fjórir tilgreindir til frekari skoðunar. Á eftir Fjarðarheiðargöngum eru nú næst í röðinni göng undir Siglufjarðarskarð og önnur undir Hvalfjörðinn.

„Þegar síðasta samgönguáætlun var lögð fram var búið að skoða mjög fáa jarðgangakosti. Ég lagði þó áherslu á að lögð væri fram jarðgangaáætlun og þá var rökrétt að þau jarðgöng sem rannsökuð höfðu verið (Seyðisfjörður-Mjóifjörður-Norðfjörður) væru næst. Við umræðu um áætlunina sagði ég að framundan væri vinna við að skoða önnur jarðgöng. Hún hefur farið fram og verið ítarleg, meðal annars með skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri fyrir Vegagerðina.

Við búum á Íslandi þar sem aðstæður og þar með forgangsröðun geta breyst, svo sem vegna náttúruvár eða umferðar. Þessi breyting skýrist af því. Hin mikla náttúruvá yfir Almenningum er ástæðan fyrir að göng undir Siglufjarðarskarð eru sett í annað sætið. Síðan hefur verið augljóst að gera þyrfti önnur Hvalfjarðargöng vegna vaxandi umferðar.

Jarðgangaáætlunin sem nú er lögð fram er til 30 ára. Þar er talað um að minnsta kosti tíu jarðgöng, jafnvel 14, verði gerði á þeim tíma.“

Breytt gjaldtaka forsenda stærstu framkvæmdanna


Samkvæmt samgönguáætlun eru 700 milljónir króna ætlaðar í undirbúning næstu þriggja jarðganga á eftir Fjarðarheiðargöngunum árunum 2024-26. Í Fjarðarheiðargöngin eru áætlaðir sjö milljarðar frá árinu 2025 en ekkert á næsta ári. Fimm milljarðar eru settir í framkvæmdir við önnur göng árið 2027. Fyrirvari er þó við að jarðgangagerðin verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð.

Fyrirvari er einnig settur við Axarveg, en þó af öðrum toga. Hann fellur í hóp samvinnuverkefna, þar sem unnið er með einkaaðilum að fjármögnun. Ef hún gengur upp á að vera hægt að hefja framkvæmdir við hann en segir í áætluninni. Ef ekki þá á að vera tryggt fjármagn í hann frá 2027.

„Þessi áætlun er sett fram í samhengi við núgildandi fjármálaáætlun annars vegar, hins vegar þá staðreynd að til skoðunar eru í sérstakri verkefnastofu fjármálaráðuneytis og innviðaráðuneytis að notkunargjöld af umferð verði tekin upp. Sú gjaldtaka spilar saman við þessa þrjú stóru atiði, samvinnuverkefnin, sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og innviða eða jarðgangaáætlun.

Við leggjum áherslu á að vinnan gangi hratt og vel en þar til henni lýkur er ekki hægt að segja hvernig fjármögnun þessara þriggja risastóru verkefna verður háttað. Forsenda þessara verkefna er að finna fjármagn utan ríkissjóðs. Ef við ætlum ekki að gera það þurfum við að horfa á samgönguáætlun og fjármálaáætlun sem rammann. Þá verða verkefnin færri og ganga hægar.

Við erum með fjármálaáætlun sem sett er fram í mikilli þenslu og 10% verðbólgu. Sem samgönguráðherra hefði ég viljað gera meira en sem einn oddvita ríkisstjórnarinnar er ég meðvitaður um að við þurfum að ná tökum á fjármálunum. Kostnaður við stórar framkvæmdir hefur hækkað um 30%. Ef það tekst að ná niður verðbólgunni og koma á jafnvægi í efnahags- og atvinnulífi þá getur skapast svigrúm í fjármálaáætluninni og ég legg áherslu á að það verði notað frekar til fjárfestinga en reksturs. Eftir tvö ár gætum við verið komin á annan stað.“

Verkefnastofan var sett á laggirnar í febrúar. Stefnt hefur verið að því að afrakstur vinnu hennar verði komin til framkvæmdar í lok næsta árs. Sigurður Ingi segir erfitt að segja til um nákvæmlega vinnunni ljúki. „Vinnunni miðar vel en ég þori ekki að svara til um tímalínuna. Ég myndi gjarnan vilja fá svar við þeirri spurningu sjálfur fyrst en vinnan er í gangi. Það hefði verið betra ef þetta tekjumódel hefði legið fyrir en vinna við það hefur ekkert tafið enn því undirbúningi hefur verið haldið áfram.“

Fjármögnunin er þó forsenda allra jarðganganna og miðað við núverandi stöðu er ekkert sem hnikar forgangsröðuninni. „Fjarðarheiðargöngin eru þau einu sem hægt er að fara af stað með, hin þurfa í umhverfismat,“ segir Sigurður Ingi.

Vonast eftir að sjónarmið almannavarna komi fram við umræður Alþingis


Í maí kynnti Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, fyrir ríkisstjórninni minnisblað sem hann sagði innihalda sjónarmið almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um forgangsröðun jarðganga á Austurlandi. „Það hefur enginn frekari rökstuðningur borist frá almannavarnadeildinni. Ég á hins vegar fastlega von á því þegar samgönguáætlun verður lögð fram á Alþingi berist umsagnir og sjónarmið, þar með talið þessi rökstuðningur.

Það sem nú er komið fram er mín tillaga eftir undirbúning Vegagerðarinnar og samgönguráðs. Þingið tekur síðan endanlega ákvörðun um forgangsröðunina. Því geta borist enn frekari gögn en okkur.“

Framkvæmdum við Suðurfjarðarveg er lítillega flýtt. Honum er áfangaskipt þannig að hægt er að byrja í botni Reyðarfjarðar árið 2027. Við það hverfur einbreið brú af Sléttuá. Samkvæmt áætluninni á að útrýma einbreiðum brúm af Hringveginum sem eru um 30 talsins, flestar milli Kirkjubæjarklausturs og Egilsstaða. Þá á að skipta út 50 öðrum einbreiðum brúm.

„Við leggjum áherslu á að flýta þeim verkefnum sem eru aðkallandi en líka að byggja upp samgöngukerfið. Það eru veruleg tíðindi að einbreiðar brýr á Hringveginum hverfi,“ segir Sigurður Ingi.

Varaflugvallagjald veitir svigrúm til framkvæmda á Egilsstöðum


Alþingi samþykkti í síðustu viku að taka upp sérstakt varaflugvallagjald. Það á að skila 1,2 milljörðum á næsta ári og meiru síðar sem nýtist í framkvæmdir á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Þar er fyrst á dagskrá endurbygging flugstöðvarinnar í Reykjavík en síðan stækkun flugbrautarinnar á Egilsstöðum. Þótt uppbyggingin á Egilsstöðum hafi verið sett í forgang í flugstefnu Íslands segir Sigurður Ingi ekki verið að taka flugstöðina fram fyrir.

„Það er í algjörum forgangi að byggja Egilsstaðavöll upp sem varaflugvöll en það getur ekki gengið hraðar. Varaflugvallargjaldið gjörbreytir umhverfinu þannig að Isavia getur farið í stærri verkefni, til að mynda uppbygginguna á Egilsstöðum. Með tryggja fjármögnun getur Isavia tekið lán til að framkvæma þegar hentar. Það er hægt þegar skipulag og hönnun eru tilbúin. Þessi áætlun er í samræmi við það. Flugstöðin í Reykjavík er líka mikilvæg því aðstaðan þar er engan vegin boðleg en hún truflar ekki uppbygginguna á Egilsstöðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar