Nýja brúin yfir Gilsá á Völlum tilbúin
Lokaúttekt fór fram í morgun á nýrri brú yfir Gilsá, sem skilur að Velli og Skriðdal. Verkið tafðist nokkuð vegna afhendingar á stáli. Ákveðið hefur verið að eldri brú við hliðina standi áfram.„Það eru eftir að mála miðlínu en það eru komnar stikur. Við hleyptum umferð á um miðjan ágúst,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi. Hann var á leiðinni frá Gilsá þegar Austurfrétt náði í hann.
Brúargerðin var fyrst boðin út sumarið 2021. Eftir að ekkert tilboð barst var breytt um takt og að lokinni annarri umferð varð MVA aðalverktaki verksins. Upphaflega átti að ljúka verkinu síðsumars 2022 en það tafðist um ár þar sem afhending á stáli í verkið dróst vegna stríðsátaka og Covid-faraldurs.
Um er að ræða 46 metra brú og 1,2 km veg í kringum hana. Hún leysir af hólmi einbreiða brú frá árinu 1957 með vinkilbeygjum báðu megin. Upphaflega stóð til að rífa þá brú en því hefur verið slegið á frest, að minnsta kosti í bili.
Brúnni frá 1957 þyrmt
Í fyrra vakti Agnar Eiríksson, íbúi á Fljótsdalshéraði og verktaki til fjölda ára, athygli sveitarstjórnar Múlaþings á því að hagur væri í að láta gömlu brúna standa. Bæði sé í nágrenninu upphaf vinsælla gönguleiða, svo sem á Hött og Hjálpleysi en einnig sé árgilið fallegt.
En Agnar vakti ekki síst máls á að óvíða á landinu væri hægt að sjá jafn greinilega framþróun í brúargerð. Örlítið neðan við brýrnar tvær stendur brú frá 1908. „Ég hef ferðast mikið um landið og man ekki til þess að hafa séð þrjár brýr standa með svona stuttu millibili yfir sömu ánna,“ skrifaði Agnar í erindi sínu.
Sveitarstjórn gekk í að kanna málið frekar. Brúin frá 1957 fellur ekki undir verndarákvæði laga um menningarminja en í umsögn minjavarðar Austurlands er tekið jákvætt í þá hugmynd að leyfa henni að standa til að halda brúarsögu svæðisins lifandi auk þess sem hún auki möguleika til útivistar á svæðinu. Sveinn segir að ákveðið hafi verið að leyfa brúnni að standa að sinni, meðal annars þar sem hún nýtist fyrir hestafólk.
Fyrsta íslenska járnbrúin
Verndargildi brúarinnar frá 1908 er hins vegar óumdeilt. Hún er líka einstök fyrir að vera fyrsta járnbrúin sem alfarið er smíðuð á Íslandi. Steinhleðslur í veginum sem liggur að henni njóta einnig verndar. Brúardekk hennar var lagað í fyrra.
Samkvæmt vegminjaskrá var áður trébrú á sama svæði. Hún skemmdist vegna ísreks og var þá gengið í að smíða járnbrúna.