Nýr eigandi að Hellisfirði
Þjóðverjinn Sven Jacobi hefur gengið frá kaupum á jörðinni Hellisfirði í samnefndum firði, sem er sá næstu sunnan Norðfjarðar. Jacobi er frumkvöðull í markaðsmálum í heimalandi sínu.Jörðin var auglýst til sölu síðasta sumar, en hún var áður í eigu félags á vegum Sigurjóns Sighvatssonar sem keypti hana árið 2000. Gengið var frá sölunni síðasta haust.
Jacobi fundaði með bæjarráði Fjarðabyggðar í morgun ásamt lögmanni sínum, þar sem farið var yfir áætlanir hans með fjörðinn, að því er fram kemur í fundargerð.
Jacobi er framkvæmdastjóri og stofnandi Neo Advertising í Hamborg. Neo rekur stóra auglýsingaskjái sem settur eru upp á til dæmis flugvöllum, stórmörkuðum og verslunarmiðstöðvum.
Neo er með skrifstofur í fimm löndum og meðal viðskiptavina þess er Unilever, L‘Oreal og Edeka. Félagið var stofnað árið 2006 en selt til Ströer Group í nóvember 2017. Samið var um að Jacobi yrði framkvæmdastjóri þess næstu tvö árin.
Bærinn Hellisfjörður stóð í botni fjarðarins. Jörðin mun vera um 1900 hektarar og á henni stendur sumarhús, byggt 1970. Hægt hefur verið að veiða silung og fugla, einkum í ósi Hellisfjarðarár. Jacobi á jörðina í gegnum Vatnsstein ehf., en samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá er tilgangur félagsins eldi og ræktun í ferskvatni.
Fjörðurinn sjálfur hefur verið í eyði frá árinu 1952. Frá 1901-1913 var rekin norsk hvalveiðistöð í landi Sveinsstaða, sem eru utar í firðinum norðanverðu og má þar enn sjá minjar um hana. Ekki er akvegur til Hellisfjarðar og þurfa áhugasamir því annað hvort að finna bát til að sigla þangað vilji þeir skoða eignina eða fara fótgangandi frá Norðfirði.
Jacobi vildi ekki veita viðtal um áform sín að svo stöddu en upplýsingar fengust um að þau kæmu betur í ljós með vorinu.