Leggja dagssektir á Mógli vegna olíumengunar á Eskifirði

Fyrirtækið Mógli ehf. hefur í engu brugðist við ítrekuðum kröfum Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) um tafarlausa hreinsun á olíumenguðum jarðvegi á tveimur lóðum á Eskifirði. Gripið hefur verið til dagssekta.

Farið var fram á það í lok júlí síðastliðinn að fyrirtækið myndi tafarlaust hreinsa töluvert olíumengaðan jarðveg á lóðum að Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði. Jafnframt var þess krafist að báðir húsageymar á þessum stöðum yrðu fjarlægðir hið fyrsta og fargað. Fékk fyrirtækið vikufrest til að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Hundsaði fyrirtækið alfarið þau fyrirmæli en á næsta fundi HAUST í byrjun september var þó ákveðið að veita viðbótarfrest til 13. september þó talað væri um tafarlausa hreinsun strax frá upphafi. Leið sá frestur án þess að forsvarsmenn Mógli sýndu nokkurn vilja til úrbóta.

Var því ákveðið á fundi HAUST þann 17. október síðastliðinn að beita fyrirtækið dagssektum frá og með deginum í dag. Verður fyrirtækinu gert að greiða 20 þúsund krónur hvern dag þangað til úrbætur hafa farið fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.