Nýr leikskóli rísi í nágrenni Fellaskóla

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að hefja undirbúning að byggingu nýs leikskóla við hlið Fellaskóla í Fellabæ. Upphaflega stóð til að byggja við núverandi leikskóla, Hádegishöfða, en frá því hefur nú verið fallið.

Eftir nokkrar umræður samþykkti fyrrum bæjarstjórn að byggt yrði við Hádegishöfða. Eftir að ný bæjarstjórn tók við völdum í fyrra var skipuð ný byggingarnefnd til að skoða staðsetningarkosti.

Búið var að hanna viðbygginguna gróflega en Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að þrátt fyrir samþykkt fyrri bæjarstjórnar hafi ekki ríkt eining um valið. Þess vegna hafi verið ákveðið að halda áfram að skoða kostina.

Í fundargerð nefndarinnar kemur fram að innan nefndarinnar hafi frá upphafi verið samstaða um að hverfa frá viðbyggingunni. Björn segir að meðal annars hafi verið áhyggjur af áhrifum framkvæmdanna á skólastarfið á byggingartíma og hvort rétt væri að byggja við jafn gamalt húsnæði og Hádegishöfði er í.

Fjórir aðrir kostir voru skoðaðir: nýbygging við Upphéraðsveg, við götuna Skólabrún, nokkru ofan við íþróttahúsið í Fellabæ, á reit milli Fellaskóla og íþróttahússins og svo sem næst Fellaskóla.

Nefndin mælti með valkosti B, sem er reiturinn milli Fellaskóla og íþróttahússins að viðbættu hluta kostar A, sem er svæðið næst Fellaskóla. Þessa ákvörðun staðfesti bæjarstjórn samhljóða á síðasta fundi sínum.

Björn segir að næstu skref sé að undirbúa hönnunina. Verið sé að afla upplýsinga um hvaða leiðir önnur sveitarfélög sem að undanförnu hafa byggt nýja leikskóla hafi farið. Niðurstaðna þar sé að vænta fljótlega.

Gert sé ráð fyrir að skólinn verði hannaður á næsta ári og byggður allur árið 2021, í stað þess að framkvæmdir dreifst á tvö ár eins og áður var gert ráð fyrir.

Nýi skólinn verður álíka stór og viðbyggingin sem áður var fyrirhugðu, þrjár deildir sem rúmi 60 börn. „Það á að vera ágætis lausn fyrir þetta hverfi,“ segir Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.