Nýr skólastjóri Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar ráðinn
Ása Sigurlaug Harðardóttir hefur verið ráðin nýr skólastjóri Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar frá og með áramótum. Hún leysir af þá tvo skólastjóra sem stjórnað hafa skólanum frá haustinu.
Stöllurnar Anna Marín Þórarinsdóttir og Eygló Aðalsteinsdóttir hafa sinnt skólastjórahlutverki grunnskólans í afleysingum það sem af er vetri en ekki tókst að ráða í stöðuna frá byrjun skólaárs eins og stefnt var að.
Ása Sigurlaug er kennaramenntuð frá Háskóla Akureyrar og jafnframt menntaður landfræðingur við franskan skóla. Hún hefur góða kennslureynslu úr bæði grunn- og framhaldsskólum en einnig komið að öðrum störfum eins og mannauðs- og verkefnastjórnun og sem kennsluráðgjafi við Háskólann á Bifröst.
Undanfarna þrjá mánuði hefur Ása verið skólastjóri Tálknafjarðarskóla en hættir því eftir flutning sinn austur á land.