Framkvæmdir hafnar við nýjan sjóflóðavarnargarð við Neskaupstað
Um mitt sumar hófust framkvæmdir við þriðja hluta snjóflóðavarnargarðanna norðan við Neskaupstað. Áætluð verklok eru 1. desember 2021. Vinnan gengur vel þrátt fyrir smá tafir í byrjun.
„Þetta verkefni felst í því að byggja varnargarða ofan við Neskaupstað undan Urðarbotnum og Sniðgili. Við erum að tala um 16 keilur í tveimur röðum og svo leiðigarð og þvergarð. Þessi framkvæmd er líkara mannvirkjunum sem búið að er byggja við Drangagil. Síðan verða notuð jarðefni sem eru fengin innan framkvæmdasvæðisins, bæði lausum efnum og efni úr bergskeringum til að byggja garðana og keilurnar,” segir Sigurður Hlöðversson, verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.
Hann bætir við að flóðmegin verða þvergarðurinn og keilurnar byggðar upp með styrkingarkerfi til að ná fyrirskrifuðum bratta og lögun sem ákvarðast útfrá snjótæknilegri hönnun.
Tafir urðu á útboði í þessi styrkingarkerfi sem urðu til þess að framkvæmdin dróst. „Við hefðum viljað byrja fyrr eða í apríl eins og til stóð en útboðsferlið tafðist. Verkið var boðið út í tvennu lagi. Annars vegar var framkvæmdin boðin út og svo hins vegar þetta styrktarkerfi sem leggja á inn í verkið hjá framkvæmdaraðilanum svo hægt sé byggja hlið garðanna sem snúa að fjallinu nógu bratta. Tafir urðu á því útboði vegna kærumála og því gátum við ekki byrjað fyrr en um mitt sumar,“ segir Sigurður.
Héraðsverk ehf. sér um framkvæmdina og í verklýsinu segir meðal annars: „Í verkinu felst einnig mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða, gerð vinnuvega, varanlegra slóða, gangstíga og áningarstaða, gerð drenskurða, stækka umfang lækjarfarvega og rása, jöfnun yfirborðs og frágangur.“