Nýr vegur yfir Berufjörð formlega tekinn í notkun
Sigurður Ingi Jóhansson, samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu nýjan veg yfir Berufjörð formlega. Á ýmsu hefur gengið við framkvæmdir og er endanlegur kostnaður 350 milljónum hærri en ráð var fyrir gert.„Það kann að hljóma undarlega að þessi kafli hafi verið svona langt á eftir en undirbúningurinn á sér langan aðdraganda og það voru margar hugmyndir um leiðir.
Árið 2017 var endanlega ákveðið að vegurinn lægi um Berufjarðarbotn og þar með voru deilur settar aftur fyrir,“ sagði Sigurður Ingi eftir að klippt hafði verið á borðann og brúin yfir fjörðinn opnuð. Með tilkomu vegarins er Hringvegurinn loks allur lagður bundnu slitlagi.
Samkvæmt samantekt frá Vegagerðinni hófst undirbúningur vegna Hringvegar um Berufjarðarbotn árið 2007 og í janúar 2008 kynnti Vegagerðin drög að tillögu að matsáætlun að fyrirhuguðum vegaframkvæmdum á Axarvegi milli Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar í Berufirði.
Við frekari undirbúning framkvæmdarinnar var ákveðið að meta saman umhverfisáhrif Axarvegar, Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar um botn Berufjarðar. Í desember 2008 var lögð fram tillaga að matsáætlun, þar sem kynntar voru fimm mögulegar leiðir að legu Hringvegar um Berufjarðarbotn. Áfram var unnið í umhverfismat og lá álit Skipulagsstofnunar fyrir vorið 2011.
Árin 2016-2017 var unnið að samningum við landeigendur og verkhönnun fyrir útboð á verkinu. Skiptar skoðanir voru um hvaða leiðir skyldi velja og seinkaði það nokkuð undirbúningnum.
Verkið var loks boðið út í maí 2017. Héraðsverk og MVA á Egilsstöðum buðu lægst, 843 milljónir króna sem var nokkuð nærri kostnaðaráætlun. Áætlaður heildarkostnaður við veglagninguna alla var 1270 milljónir.
Reiknað er með að endanlegur kostnaður verði 1620 milljónir, eða um 350 milljónir eða 27,5% umfram áætlun. Upphaflega átti að opna veginn síðasta haust, ári eftir að framkvæmdir hófust, en undirstöðurnar í firðinum reyndust veikar og vegurinn seig hratt.
Heildarefnismagn í vegagerðina var alls samtals 495.000 m3. Fyllingar voru um 445.000 m3, þar af um 180.000 m3 viðbótarfyllingar vegna veikra laga í sjávarbotni.
Vegurinn er alls 4,9 km langur, þar af liggur um 1 km yfir sjó og leirur. Brúin er steinsteypt, 50 metra löng og 10 metra breið. Nýjar vegtengingar að bæjunum Hvannabrekku og Berufirði eru alls 1,6 km.
Bergþóra og Sigurður Ingi klippa á borðann. Anna Jóna Eðvarðsdóttir frá Hvannabrekku í Berufirði hélt á skærunum. Mynd: Mynd: Ásgeir Metúsalemsson