„Nýr veruleiki að geta vafrað svona um“

Mjófirðingar sjá fram á aukið öryggi, bætt atvinnuskilyrði og fleiri afþreyingu eftir að ljósleiðari var lagður til staðarins. Íbúar fjölmenntu í kaffisamsæti sem haldið var í tilefni áfangans á föstudag.

„Þetta breytir mjög miklu, einkum upp á öryggið. Nú höfum við öruggan venjulegan heimasíma og getum hringt örugglega milli bæja ef við þurfum,“ segir Erna Ólöf Óladóttir, íbúi á Mjóafirði.

Mjófirðingar hafa til þessa búið við slitrótt síma- og fjarskiptasamband, einkum yfir vetrartímann. Við bæinn Brekku stendur fjarskiptamastur sem varpar bylgjum í annað mastur uppi á Mjóafjarðarheiði. Það er í þó nokkurri hæð og stundum hefur svo brugðið við að á það hefur lagst svo mikil ísing að það hefur ekki getað varpað frá sér bylgjum. Þá hefur allt símasamband dottið út á Mjóafirði.

„Sem betur fer hafa ekki orðið nein stórslys. Ef þess hefur þurft þá hefur einhver farið niður í bát og kallað í Nesradíó til að láta vita að við séum alveg sambandslaus,“ segir Erna.

Hún segir ljósleiðaratenginguna efla atvinnustarfsemi á Mjóafirði. „Þótt fyrirtækin okkar séu lítil þá eru flestar bókhaldslausnirnar unnar í skýjaumhverfi. Stundum hefur maður talið sig vera búinn að vinna töluvert en svo er ekkert inni á skýinu. Það tekur tíma að endurgera það sem maður þóttist vera búinn að gera.“

Öflugra tölvusamband nýtist einnig til að halda sambandi við vini og ættingja. „Við sem búum hér eigum öll börn sem eru farin að heiman og sum foreldra sem eru orðnir fullorðnir. Þessi tenging hefur því heilmikla þýðingu fyrir okkur.“

Framboð sjónvarps- og afþreyingarefnis eykst einnig á Mjóafirði með ljósleiðaranum. „Útsendingar RÚV hafa náðst vel á flestum bæjum, nokkrir hafa svo einnig náð Stöð 2. Nú erum við komin með tvær fjarstýringar, VOD, tímaflakk og bíórásir. Þetta verður nýr veruleiki fyrir okkur að geta vafrað svona upp.“

Mjóifjörður er meðal einangraðri staða landsins. Landleiðin þangað er ófær stóran hluta vetrarins. Að þessu lokaðist leiðin um miðjan október en var opnuð á ný í byrjun síðustu viku, eins og stundum er gert þegar snjólétt er og gott veður. Annars hefur vegurinn verið opnaður fyrri hluta maí. Siglt er milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar tvisvar í viku frá október fram í maí.

RARIK hefur að mestu séð um að leggja ljósleiðarann en tækifærið var einnig nýtt til að leggja nýjan rafstreng til fjarðarins. Þeirri framkvæmd verður lokið í sumar og munu Mjófirðingar þá hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni.

„Við erum þakklát fyrir það sem nú hefur verið gert. Nú er ljósið komið og svo kemur jólaljósið á eftir,“ sagði Sigfús Vilhjálmsson, bóndi á Brekku á föstudaginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.