Nýtt byggðamerki Vopnafjarðar og ný heimasíða
Vopnafjörður er kominn með nýtt byggðamerki og nýja heimasíðu þar sem hið nýja merki er kynnt. Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps segir að hið nýja merki sé ótrúlega velheppnað, sem og heimasíðan.Vinna við gerð hins nýja byggðamerkis á sér nokkurn aðdraganda en hafist var handa á vormánuðum í fyrra.
„Í upphafi var ljóst að eldra merki sveitarfélagsins væri bæði barn síns tíma og stæðist ekki reglur sem settar eru um byggðarmerki, til dæmis þegar litið er til forms skjaldarins, lita og útlínu.“ segir Sara Elísabet.
Hún segir einnig að því hafi verið ákveðið að búa til nýtt merki samhliða vinnu við stefnumörkun og gerð nýrrar heimasíðu. Með því næðust samlegðaráhrif í hönnun og allt efni Vopnafjarðarhrepps hlyti sama útlit.
Það sem gerist næst er að í nóvember 2019 var tilboð frá Kolofon hönnunarstofu í mörkun og nýjan vef samþykkt af sveitarstjórn og auk þess var stofunni falið að koma með tillögu að nýju byggðarmerki.
Í vor var síðan tillaga Kolofon að nýju merki samþykkt samhljóða og hún í kjölfarið send til skráningar hjá Hugverkastofunni.
„Mér finnst merkið ótrúlega vel heppnað og öll vinnan hjá Kolofon mjög faglega og vel unnin og erum við ótrúlega ánægð með samstarfið,“ segir Sara Elísabet.
„Einnig er þvílíkur munur að fá nýjan vef fyrir sveitarfélagið því gamli vefurinn var mjög úreltur og erfitt að vinna með hann. Nú er komið heildstætt og fallegt útlit fyrir sveitarfélagið sem allir ættu að geta verið stoltir af.“