Nýtt hljóðver opnar á Stöðvarfirði
Hljóðverið Stúdió Síló sem tilheyrir Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði verður formlega opnað næstkomandi sunnudag. Hljóðverið hefur verið í byggingu undanfarin misseri og tók til starfa í sumar.
Tónlistarmaðurinn Vinny Vamos er maðurinn á bakvið hljóðverið. Hann segist byrjað að taka upp tónlist þegar hann var 16 ára í sinni fyrstu hljómsveit. „Ég byrjaði á því að setja upp smá upptökubúnað í bílskúrnum hans pabba og fljótlega var áhuginn á þessu orðinn virkilega mikill,“ segir Vinny um upphaf sitt í þessari iðn.
Hann segist alltaf hafa dreymt um að útbúa sitt eigið atvinnu hljóðver en aldrei gefist tækifæri til þess í heimalandi sínu Írlandi en dyr opnuðust á Íslandi. „Árið 2014 gafst okkur konunni minni Unu Sigurðardóttur kostur á að taka við Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Þá fluttum við til Íslands og byrjuðum að byggja upp.
Þá fór mig að langa að útbúa hljóðver hérna og gera það smátt og smátt en fyrir algjöra tilviljun þá kynntist ég hljóðvershönnuði og hann bauðst til þess að hjálpa okkur og hanna hljóðverið alveg frítt,“ segir Vinny.
Þá hafi verkefnið undið upp á sig og hljóðverið sem verið er að opna á sunnudaginn er afraksturinn af þeirri vinnu.
„Stúdíó Síló verður síðan opnað með pompi og prakt næstkomandi sunnudag kl. 13:00. Við ætlum að bjóða upp á léttar veitingar og svo verða þarna tónlistaratriði. Við bjóðum bara alla velkomna,“ segir Vinny að lokum.
Vinny Vamos með kaffibollann sinn í hljóðverinu sínu. Mynd úr einkasafni.