Nýtt íþróttahús Reyðfirðinga lyftistöng fyrir allt sveitarfélagið
Það var mikið húllumhæ við vígslu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði á sunnudaginn var en húsið er mikil lyftistöng fyrir íþróttalíf í Fjarðbyggð allri.
Um er að ræða 1500 fermetra límtréshús auk 200 fermetra tengibyggingar við eldra íþróttahús bæjarins en heildarkostnaður við bygginguna var um 670 milljónir króna. Mikill fjöldi gesta sótti vígsluna en Fjarðabyggð blés til sérstaks Fjölskyldudags af þessu tilefni þar sem tilkynnt var um val á íþróttamanneskju ársins. Mikil skemmtun var í boði fyrir börnin og sjálfur íþróttaálfurinn og Solla stirða ráku inn nefið.
Að sögn Hjördísar Helgu Seljan Þóroddsdóttur, forseta bæjarstjórnar, mun húsið nýtast fjölmörgum mismunandi aðilum bæði við íþróttakennslu í grunnskóla Reyðarfjarðar sem og störfum hinna ýmsu íþrótta- og tómstundafélaga í sveitarfélaginu. Öðrum áhugasömum gefst einnig tækifæri til að leigja tíma í húsinu.
Húsið verður tekið í notkun fljótlega en enn er eftir að koma fyrir stigatöflu sem byggingaraðili hússins, Launafl, hefur gefið og þá er og framundan að setja þar upp fyrsta klifurvegg hér austanlands en sú íþrótt nýtur mjög vaxandi vinsælda. Ráð er fyrir gert að sá verði kominn í gagnið með vorinu.
Hjördís Helga er í engum vafa um mikilvægi nýja hússins og hvetur íbúa Fjarðabyggðar til að nýta sér það sem í boði verður.
„,Þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir íþróttalíf og bæjarbúa alla. Það er miklivægt fyrir líkama og sál að stunda íþróttir og ég vona svo sannarlega að íbúar sveitarfélagsins verði duglegir að nýta sér það sem er í boði og hvet fólk til þess að leggja stund á íþróttir og heilsusamlegt líferni. Því að eins og við flest öll vitum þá er það heilsan sem skiptir okkur mestu og snemma beygist krókurinn.“
Fjöldi fólks heimsótti nýja íþróttahúsið en það verður tekið í notkun á næstu dögum. Boðið var upp á veitingar og íþróttafélög í sveitarfélaginu kynntu starfsemi sína auk þess sem tilkynnt var um íþróttamanneskju Fjarðabyggðar þetta árið.