Nýtt tengivirki að Hryggstekk stærsta framkvæmdin á Austurlandi á næstunni hjá Landsneti

Nýtt tengivirki við Hryggstekk í Skriðdal er stærsta framkvæmdin sem framundan er hjá Landsneti á Austurlandi samkvæmt kerfisáætlun til næstu tíu ára.

Kerfisáætlunin er til tíu ára en henni fylgir einnig framkvæmdaáætlun fyrir árin 2024-6 og langtímaáætlun til 20 ára. Landsnet hefur staðið í miklum framkvæmdum á Austurlandi síðustu ár en í augnablikinu er stund milli stríða.

Næsta stórverkefni er að tengja Fljótsdalslínur 3 og 4, sem liggja frá Fljótsdalsstöð niður í álverið í Reyðarfirði, við nýjan spenni við Hryggstekk. Því er ætlað að létta á flöskuhálsi í sniði IIIb í landsflutningskerfinu, sem er takmörkuð flutningsgeta í vestur frá Blönduvirkjun og til suðurs frá Fljótsdalsstöð.

Með þessum breytingum færast þeir afhendingarstaðir á Austurlandi, sem taka við rafmagni frá Hryggstekk, inn fyrir sniðið. Það á að skapa afhendingargetu upp á 40 MW og 200 GWh á ári.

Það getur skapað Landsneti tekjur upp á 220-410 milljónir króna. Það þýðir að framkvæmdin, sem kostar 3,5 milljarða, á að geta borgað sig upp á 8-15 árum, eftir hvort orkan verður seld í gegnum almenna kerfið eða til stórnotenda.

Landsnet áformar einnig að endurnýja núverandi 132 kV hluta tengivirkisins. Mögulegt er þó að verkinu verði áfangaskipt þannig að sá hluti verði unnin á árunum 2026-28, á öðru tímabili áætlunarinnar. Annars er áætlað að hefja framkvæmdir á Hryggstekk 2025 og ljúka þeim tveimur árum síðar.

Með tengingunni fæst tryggari tenging inn á Hryggstekk. Þangað liggja tvær línur í dag en aðeins þarf truflun á annarri þeirra til að valda alvarlegri röskun á byggðalínukerfinu.

Á árunum 2026-8 er að auki stefnt á að endurnýja Stuðlalínu 1 og tengivirki á Seyðisfirði. Þá á einnig að ráðast í tvítengingu Fáskrúðsfjarðar. Á tímabilinu 2028-33 á að endurnýja búnað í tengivirki við Eyvindará á Héraði, Stuðla í Reyðarfirði og á Vopnafirði auk Lagarfosslínu. Engar nýframkvæmdir á Austurlandi eru á því tímabili.

Þær eru hins vegar á tímabilinu 2033-38. Þá á að tryggja Vopnafirði hringtengingu og endurnýja tengivirki og línur frá Teigarhorni í Berufirði að Hólum í Hornafirði. Loks stendur til að endurnýja Stuðlalínu 2 og Vopnafjarðarlínu 1 á árunum 2038-43.

Opið er fyrir umsagnir almennings um kerfisáætlunina. Umsagnarfrestur rennur út í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar