Óánægja Fljótsdælinga að fá ekki stjórnarmann í Samtökum orkusveitarfélaga
Ný fimm manna aðalstjórn Samtaka orkusveitarfélaga var kosin á aðalfundi samtakanna fyrr í mánuðinum en engir úr Fljótsdalshreppi hlutu náð fyrir augum þátttakenda.
Lét sveitarstjórn Fljótsdalshrepps bóka sérstök vonbrigði með þessa niðurstöðu á síðasta sveitarstjórnarfundi enda sé langstærsta vatnsorkuver landsins, Fljótsdalsvirkjun, staðsett í hreppnum. Enginn var heldur kosinn á sínum tíma í fráfarandi stjórn úr röðum Fljótsdælinga en einn varamaður nýrrar stjórnar, Kjartan Benediktsson, er þó úr hreppnum.
Austurland á þó áfram einn fulltrúa í stjórn samtakanna sem er Jónína Brynjólfsdóttir frá Múlaþingi en formaður að þessu sinni var kosin Ása Valdís Árnadóttir frá Grímsnes- og Grafningshreppi.
Þrjú ný sveitarfélög fengu aðild að þessu sinni; Reykhólahreppur, Skorradalshreppur og Kjósarhreppur en með þeim er fjöldi sveitarfélaga með aðild alls 23 talsins.
Fljótsdalsstöð framleiðir mesta orku allra vatnsaflsvirkjana í landinu en Fljótsdælingar fá þó ekki sæti í stjórn Samtaka orkusamtaka. Mynd Landsvirkjun