Óbyggðanefnd hafnar þorra þjóðlendukrafna ríkisins á Austfjörðum

Af alls 25 upphaflegum kröfum íslenska ríkisins um þjóðlendur á Austurlandi féllst Óbyggðanefnd einungis á kröfu ríkisvaldsins á tveimur svæðum. Úrskurður þess efnis var kunngjörður í gær.

Um er að ræða allra síðustu úrskurði nefndarinnar er varða meginland Íslands sem að þessu sinni tók til svæðis 11 sem nær yfir Austfirðina. Einir 25 landeigendur gerðu kröfulýsingu mót fjármála- og efnahagsráðherra sem kröfurnar setti fram fyrir hönd ríkisvaldsins.

Niðurstaða Óbyggðanefndar er að tvö þau svæði sem ríkið gerði kröfu til auk hluta þriðja svæðisins væru þjóðlendur. Þær eru suðurhluti Eyvindarárdals ásamt Skagafelli, Tungu- og Svínadal, Búðartungur inn af Geitdal og hluti Hofsjökuls ofan Hofsdals í Álftafirði.

Sérstaka athygli vekur að kröfu ríkisins í nokkur stór svæði í Útmannasveit, Borgarfirði, Víkum og Loðmundarfirði var einum rómi hafnað. Nánar má kynna sér úrskurði nefndarinnar hér.

Skýr sigur landeigenda

Jón Jónsson, lögmaður hjá Sókn, fór fyrir meirihluta landeigenda sem mótmæltu kröfum ríkisins, og segir niðurstöðuna skýran sigur fyrir þá sem að komu. Hann undrast nokkuð hversu víðtækar kröfurnar voru í upphafi enda hafi ríkið einnig verið rekið að stærstu leyti til baka með sams konar kröfur í Jökuldal og á Héraði fyrir nokkrum árum síðan.

„Ætli ég hafi ekki verið með ein sextán mál af þessum fjölda í þetta sinn. Niðurstaðan er auðvitað mjög góð fyrir landeigendur og í samræmi við það sem ég sjálfur átti von á þó niðurstaðan sé betri en ég leyfði mér að þora að vona. En mjög mikið af þessum málum voru að mínu mati frá upphafi ekkert sem landeigendur þurfti að hafa stórar áhyggjur af þó auðvitað séu inn á milli mál sem alveg er réttlætanlegt að fjalla um og yfirfara. Þessi niðurstaðan er í raun keimlík þegar þeir gerðu kröfur 2005 nánast í allar jarðir frá Brú á Jökuldal og alveg út að Héraðsflóanum. Þeim kröfum var langflestum hafnað.“

Óbyggðanefnd tók ekki undir langflestar þjóðlendiskröfur sem ríkið gerði á Austfjörðunum. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.