Örfá handtök eftir við fyrstu plötu Senga‘s Choice
Norðfirðingarnir Jón Hilmar Kárason og Þorlákur Ægir Ágústsson eru mennirnir á bakvið hljómsveitina Senga‘s Choice sem á næstunni sendir frá sér breiðskífuna Ideas & Secrets. Sveitin spilar tónlist sem hljómsveitarmeðlimir skilgreina sem „Frog Prog.“„Þegar við útskýrum hvers konar tónlist við spilum verður það yfirleitt svo mikil langloka þannig við ákváðum að búa til nýtt hugtak,“ segir Jón Hilmar.
Hugtakið útilokar þó ekki spurningar heldur kallar á útskýringu. „Þetta er fjölbreytt og skemmtileg hljóðfæratónlist, öðruvísi en hefur hefur verið að koma út á Íslandi. Þetta er lífræn tónlist sem gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn,“ útskýrir Jón Hilmar.
Lögin eru eftir hann og Þorlák, sum nokkurra ára gömul. Það sem kom hlutunum á hreyfingu var þegar Birgir Baldursson, einn fremsti trommuleikari landsins, flutti austur á Eskifjörð í byrjun árs til að kenna tónlist.
„Það breytti ótrúlega miklu að fá heimsklassa trommara á svæðið. Við getum gert meira hér heima því við höfum fengið svo frábæran trommara. Síðan höfum við lítið verið að spila út af ástandinu þannig við ákváðum að drífa þetta í gang og klára plötuna,“ segir Jón Hilmar.
Platan var tekin upp í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði og að sögn Jóns Hilmars eru aðeins nokkur handtök eftir við hana en útgáfudagurinn er áætlaður 9. október. Þá lýkur á miðnætti söfnun fyrir útgáfunni á Karolina Fund.
Platan kemur út á Spotify og öðrum streymisveitum, en eins og Jón Hilmar bendir á er markaður hennar ekki síst alþjóðlegur. „Hópurinn sem hlustar á hljóðfæratónlist hérlendis er ekki mjög stór þannig ég býst við að við sendum tölvupósta og eitthvað til að kynna hana á stærri vettvangi.
Tæknilega séð er orðið auðveldara að komast hvert sem er en svo eru allir inni á sömu veitunum þannig það er áfram jafn erfitt að komast áfram, þótt þú þurfir engan á bakvið þig. Það er í þínum höndum að kynna það sem þú ert að gera.
En það er vonandi að einhver nenni að hlusta á plötuna. Við förum ekki fram á meira.“